Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Page 89
88
byggða frumbyggja.11 Þau voru líklega með fyrstu Íslendingunum sem ráku
gistiheimili og hafa nýtt sér staðsetningu jarðarinnar við fljótið til hins ýtr-
asta. Norðan við bæinn er nes sem gengur út í ána og nefnist einfaldlega
Nes. Þar er gott lægi fyrir báta og því má ætla að staðurinn hafi verið
áningarstaður þeirra sem ferðuðust um svæðið. Íslendingar voru vanir
að hýsa ferðafólk á Íslandi án þess að taka greiðslu fyrir en Jón og Pálína
hafa líklega kynnst rekstri alvörugistihúsa á ferðalögum sínum frá Íslandi
til Nýja-Íslands. Guttormur J. Guttormsson nefnir það þó sérstaklega í
endurminningum sínum að foreldrar hans hafi aldrei þegið greiðslu af
Íslendingum heldur einungis af fólki af öðru þjóðerni.
Þegar fjölskyldan bjó í þessu húsi vann Jón Guttormsson í sögunarverk-
smiðju Sigtryggs Jónassonar og Friðjóns Friðrikssonar og hafði jafnframt
reikning í verslun þeirra á Möðruvöllum sem var andspænis Víðivöllum
við Íslendingafljótið. Reikningar hans frá árinu 1881–1883 hafa varðveist
og gefa mynd af neyslumynstri fjölskyldunnar. Jón fékk ekki borgað fyrir
vinnu sína í sögunarverksmiðjunni í peningum heldur með inneign í búð-
inni. Vinnulaunin eru mestur hluti kreditreiknings hans (61%) auk þess
sem hann seldi dálítið af heyi, bjálkum, eldiviði og kartöflum til verslunar-
innar. Þessar verslunarvörur benda til þess að Jón hafi verið að ryðja landið
og fyrst um sinn lagt áherslu á búskap með kindur og kýr með tilheyrandi
heyrækt, fremur en kornrækt. Í staðinn fyrir þessa hluti keypti Jón ýmsar
vörur. Stærsti vöruflokkurinn var kornmeti (24%) og þá fatnaður og vefn-
aðarvörur (12%) svo sem bómull, gallaefni, skyrtuléreft o.s.frv. (mynd 1
og 2).12 Það vöruskiptakerfi sem Íslendingarnir voru vanir frá Íslandi hefur
því haldist á fyrstu árum nýlendunnar. Þó er ljóst af því reiðufé sem Jón
borgar til verslunarinnar að peningar hafa ekki verið óþekktir og sú stað-
reynd að Jón fær tímakaup, 17 sent á klukkustund, gefur til kynna þróun
frá vöruskiptum til kapítalískra viðskiptahátta. Þótt líkindi séu með versl-
unarreikningi fjölskyldunnar og íslenskra fjölskyldna á Íslandi á sama tíma,
sérstaklega með tilliti til innkaupa á kornmeti, tóbaki og kaffi, eru nokkur
atriði ólík. Hjá Friðjóni var til að mynda hægt að fá ferska ávexti og villibráð
eins og kanínur og elgdýr sem Íslendingarnir lærðu að nýta. Fjölskyldan
keypti jafnframt, ólíkt því sem tíðkaðist á íslenskum bæjum á þessum tíma,
talsvert af ýmiss konar vefnaðarvörum en fingurbjörg, tvinni og hnappar
11 Sama heimild.
12 Icelandic Collection, Elizabeth Dafoe Library, University of Manitoba. Friðjón
Friðriksson’s and Sigtryggur Jónasson’s Store Ledgers.
ÁGústA EdwALd