Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Qupperneq 24
23
Andstaðan í samfélaginu
Þegar kom fram á 8. áratug 19. aldar vaknaði útþráin á nýjan leik. Enn og
aftur varð Brasilía sterkur dráttur í myndinni. Jónas Friðfinnsson Bardal sá
til þess. Hann skrifaði heim og skoraði á landa sína að gerast Brasilíubúar
og hét þeim fríu fari yfir hafið.6
Frí sigling! Tilboðið hleypti slíku offorsi í landsmenn – ekki aðeins
Þingeyinga – að fyrr en varði höfðu hundruð skráð sig til fararinnar, hvort
þeir voru á sjötta eða sjöunda hundraðið er ekki alveg ljóst.
En hvað gerðist? Af hverju varð ekki blómleg byggð Íslendinga í
Brasilíu eins og rök hnigu til, bæði 1865 og ekki síður 1873? Ein skýr-
ingin var togstreita um vinnuafl. Þegar fyrri Brasilíubylgjan reis dró Pétur
Havstein, amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal, athyglina að þeim
mikla hnekki sem sveitir landsins gætu beðið ef tækist að gera alvöru úr
Brasilíudraumnum. Það yrðu einfaldlega of fáar hendur eftir til að hlúa
að landbúnaðinum. Um þetta skrifaði ónefndur greinarhöfundur í apríl
1865 og var ómyrkur í máli: „Nei, að reita þetta fáliðaða land af fólki því
sem það nú hefir og getur átt með rjettu, það met jeg eitt hið ómannleg-
asta óheillatak, sem nú hefir að fornu og nýju verið tekið af sonum þess, og
hafa þau þó því miður verið fleiri en vera skildi“.7
Íslendingar í Kaupmannahöfn létu ekki sitt eftir liggja og gerðu rök
Péturs Havstein og hins ónefnda greinarhöfundar að megininntaki orð-
ræðu sinnar gegn vesturferðum. „Allir málsmetandi Íslendingar þar, eru
[…] mótsnúnir útflutningunum“, skrifaði Jakob Hálfdanarson í ársbyrj-
un 1873 – þegar seinni Brasilíubylgjan reis hvað hæst – um landa sína í
Kaupmannahöfn, og sagði þá beita fyrir sig „kenningum sínum um auð-
legð og sælu Íslands“.8
Árið 1865 var hreppstjórum í Þingeyjarsýslu hins vegar ekki efst í huga
skortur á vinnuafli heldur óttuðust þeir að missa spón úr hreppssjóði þegar
vel búandi bændur hyrfu á braut og prestar höfðu á orði að þetta væri
feigðarflan, utanfararnir myndu glata þjóðerni sínu. Einhverjir kynnu þó
að nýta síðustu kraftana til að koma sér heim aftur, þó ekki til annars en að
leggjast upp á gömlu sveitina sína, félausir og dauðir í sálinni.
Undir þessum formerkjum var umræðan og hún var sannarlega líf-
6 „Brjef frá Íslendingi í Brasilíu“, Norðanfari 11. september 1871, bls. 76–77.
7 „Kafli úr brjefi“, Norðanfari 7. apríl 1865, bls. 26.
8 Lbs. 2742, 4to, Jakob Hálfdanarson til Jóns Sigurðssonar á Gautlöndum 17. janúar
1874.
ÞVÍ MISTÓKUST BÚFERLAFLUTNINGAR ÍSLENDINGA TIL BRASILÍU?