Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Qupperneq 28
27
flestir álíta heilagann sannleika, en sem í raun og veru er að mestu, eða
máske alveg rakalaus lýgi“.21
Lánleysi Brasilíufara
Eflaust hefur það líka dregið kjarkinn úr að eini stóri Íslendingahópurinn
er sigldi til Brasilíu – og taldi þó aðeins 35 manns – lenti í þeim ósköpum
að kólerufaraldur gaus upp á skipinu þegar beðið var byrs í Cuxhaven. Þrír
Íslendingar létust, tveir fullorðnir og nýfætt barn. Sannaðist þá óðara hið
fornkveðna að fár bregður hinu betra ef veit hið verra. Það fennti fljótt
yfir þá staðreynd að ræðismaður Brasilíu í Kaupmannahöfn reyndist – að
minnsta kosti í þetta sinn – afar ábyggilegur maður. Hann stóð við það fyr-
irheit að greiða ferðakostnað allra, fullorðinna jafnt sem barna, frá Íslandi
og ekki nóg með það; hann lét hvern og einn hafa fæðispeninga fyrir þá
daga sem dvalist var í Kaupmannahöfn en þangað komu Íslendingarnir í
þremur hópum og sameinuðust í einn stóran er hélt áfram til Þýskalands
þaðan sem siglingin mikla átti að hefjast.22 Í stað þess að upphefja og básúna
hinn trausta ræðismann urðu kóleran og dauðsföllin miðpunktur umræð-
unnar, og líka hin tiltölulega illa vist er Íslendingarnir bjuggu við á sigling-
unni suður á bóginn. Þeir urðu skotspónn skipstjórans og þýskra farþega,
er voru í miklum meirihluta um borð, en stýrimaðurinn og danskir og
sænskir farþegar tóku málstað mörlandans.
Þessar fréttir af eymd Brasilíufaranna voru ekki þaggaðar niður. Þvert
á móti urðu þær almælt tíðindi þegar Björn Jónsson ritstjóri komst yfir
fjögur bréf sem Magnús Guðmundsson skrifaði í Hamborg og um borð
í skipinu þar sem það lá á Saxelfi. Björn birti ekki bréfin en tók innihald
þeirra saman í stuttri grein. Sem nærri má geta var ekki bjart yfir þeim
skrifum. „Það má vel finna á anda Magnúsar, að hann vildi helzt vera horf-
inn aptur heim til Íslands“, skynjar ritstjórinn, og bætir við að Magnús
segi það berum orðum að hann ráði engum manni að flytjast til Brasilíu,
21 „Úr brjefi“, Norðanfari 31. júlí 1874, bls. 91. Bréfið skrifaði Jónas 24. febrúar sama
ár. Hann hafði reyndar skrifað annað bréf ári fyrr, dagsett 24. júlí 1873, þar sem
sagði frá því að franskir og enskir innflytjendur hefðu fengið frítt fæði í Brasilíu á
meðan þeir voru að koma sér fyrir en margir gengið á lagið, verið „með heimtu-
frekju“ og ekki nennt að gera neitt á meðan stjórnin fékkst til að halda þeim uppi.
Svo skrifaði Jónas ekki meira um þetta en neðanmáls hnýtti Jakob Hálfdanarson
við að þarna væri sennilega komin skýringin á hörmungum Englendinganna. „Úr
brjefi frá Jónasi Fr. Bárðdal“, Norðanfari 6. febrúar 1874, bls. 12.
22 Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, Æfintýrið frá Íslandi til Brasilíu, bls. 314–315.
ÞVÍ MISTÓKUST BÚFERLAFLUTNINGAR ÍSLENDINGA TIL BRASILÍU?