Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 182
181
alvarlegum fordómum eða, eins og virðist vera tilfellið þegar kemur að
yfirtöku, raunverulegri tilfinningu um að vera afmáður, er bráðnauðsynlegt
að koma á framfæri þeim veruleika sem þessir rithöfundar ljá rödd. Þá er
það ekki valkostur að þegja þunnu hljóði. Bessie Head lýsir reynslu sinni
af því að vera skotspónn kynþáttafordóma og verða fyrir vikið „innantóm“,
sjái sig með annarra augum og finnist það einhvern veginn alveg jafn erfitt
og ókunnugum að „þekkja sjálfan sig“. Hún skýrir þetta sem svo að „við
vissum ekki hver eða hvað við værum, annað en hlutir til að misnota og
arðræna“ (bls. 66). Í ljósi þessarar reynslu má færa rök fyrir því að yfirtaka
á sagnaarfinum auki vanda þeirra sem slíkt eignarhald er lagt á, því að þeir
fari að líta á sig sem „hluti“ án raddar. Tengslin á milli upplifunarinnar á
því að vera „yfirtekinn“ í bókmenntum annars vegar og kynþáttahaturs
hins vegar ætti ekki að vanmeta. Rökfærsla mín hér er á þá leið að í það
minnsta ætti að fjalla um yfirtöku af varfærni og með umhyggju og fullum
skilningi á því sem hún felur í sér.
Þótt „fórnarlambið“ verði fyrir eins konar persónulegu „ráni“ við yfir-
tökuna, innrás í einkalífið, óvelkomnu laumuspili, ósiðlegri hegðun, heims-
valdastefnu, menningarlegu/ímyndarlegu „þjóðarmorði“, og hreint og beint
kynþáttahatri, þá er málið alveg jafn flókið fyrir rithöfund sem kemur að
málinu frá hinni hliðinni. Rithöfundur sem yfirtekur efni frá öðrum menn-
ingarheimum eða einstaklingum er á marga vegu ekki að gera annað en
að sinna hlutverki sínu sem rithöfundur. Að útskýra „kosti“, eða jafnvel
nauðsyn þess að geta frjálst og óheft tekið efni úr öllum áttum og notað
það á þann hátt sem nauðsyn býður er að sumra mati „heilög skylda“ rit-
höfundarins. Paul Auster ræðir til dæmis um þetta í tengslum við franska
ljóðskáldið Segalen í ritgerð sinni „Twentieth-Century French Poetry“.27
Segalen „skrifaði á bak við grímu annarrar menningar“ vegna þess að hann
neyddist til þess (bls. 215), það er að segja, ljóðin hans voru „ljóð skrifuð
af frönsku ljóðskáldi eins og hann væri kínverskur“ (bls. 216). Ljóðskáldið
þurfti að fela sig á bak við „grímu“ annarrar menningar til þess að veita
hugarfluginu aukið rými. Auster útskýrir að „með því að leysa sjálfan sig
undan takmörkunum sinnar eigin menningar, með því að komast fram hjá
sínum eigin sögulega tíma, gat Segalen kannað miklu víðfeðmara svæði – og
uppgötvað, að vissu leyti, þann hluta sjálfs sín sem var ljóðskáld“ (bls. 216).
27 Victor Segalen (1878–1919) var franskur sjóliði og ljóðskáld sem skrifaði ferðalýs-
ingar. Hann er þekktur fyrir gagnrýni sína á þjóðhverfan hugsunarhátt, nýlendu-
stefnu og framandleika. Hann er best þekktur fyrir skáldsögu sína Les Immémoriaux,
bók um Tahiti og ferðalýsingar sínar um Kína, meðal annars Equipée.
ÞVERMENNINGARLEGT EIGNARNÁM: VANDAMÁL oG SJÓNARMIð