Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 106
105
sem tengdu þá við gömlu heimkynnin bresta skapast sektarkennd sem
birtist í gagnrýninni, jafnvel herskárri afstöðu gegn föðurlandinu sem hafi
brugðist börnum sínum og hrakið þau burtu.6
Þeir Vestur-Íslendingar sem vildu verða Kanadabúar af lífi og sál reyndu
að læra ensku sem allra fyrst, tileinka sér siði og hætti nýja landsins og kenna
börnunum það sem þau þurftu til að aðlagast fljótt. Aðrir voru tvíbentir í
afstöðu sinni, vildu halda í þjóðernið en töldu það óraunsætt til lengri tíma
litið. Enn aðrir vildu helst ekki aðlagast eða aðlagast sem minnst og halda
hópinn sem myndi áreiðanlega stækka þegar aðrir landsmenn kæmu á eftir
þeim. Þeir vildu slá skjaldborg um íslenskt þjóðerni og tungumál í Kanada.
Um það hvaða leiðir skyldi fara ríkti engin sátt í íslensku „díasporunni“
fyrstu áratugina en það voru þjóðernissinnuðu Íslendingarnir sem réðu
orðræðunni lengi framan af.7 Í bókinni Foreldrar mínir (1956) segja fjórtán
aldraðir Vestur-Íslendingar frá foreldrum sínum af fyrstu kynslóð innflytj-
enda,8 og þar má sjá að þeir telja tryggð foreldranna við gamla landið vera
þeim til mikils sóma og ekki rýra „menningarlegt auðmagn“ þeirra í nýja
landinu nema síður sé. Undantekningarlaust er lögð áhersla á að mikil
rækt hafi verið lögð við íslenska tungu á bernskuheimilinu og fram kemur
að í flestum foreldrahúsunum var einungis töluðu íslenska. Einn grein-
arhöfunda telur það fram sem hrós að þótt bernskuheimili hans hafi staðið
„mitt í Dakota hafi það í engu brugðið frá íslensku sveitaheimili“.9
Hinar þjóðernisrómantísku goðsagnir sem leiðandi menn af fyrstu
kynslóð Vestur-Íslendinga notuðu til að blása fólki kjark og þjóðernisstolt
í brjóst voru ekki aðeins bundnar tungumáli og sögu heldur líka náttúru
heimalandsins. Tengsl náttúru og þjóðernis eiga rætur sínar í rómantískum
hugmyndum um lífræna heildarhyggju sem var hrygglengjan í ljóðum
skálda sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld. Þessi ljóð fluttu íslenskir innflytj-
endur með sér til Vesturheims, birtu þau í blöðum og tímaritum og fluttu á
mannamótum. Náttúran sem mætti landnemunum í Nýja Íslandi var hins
vegar ókunnugleg og jafnvel fjandsamleg. Náttúra heimalandsins virtist
æ fegurri og mildari í samanburði við steikjandi hita, ískulda og mýbit
6 Sama rit, bls. 19–20.
7 Hugtakið „diaspora“ er notað um þjóð sem deilir tungumáli, menningu eða sögu
en hefur tvístrast og reynir þó að að halda fast við sérkenni sín í hópum eða þjóð-
arbrotum.
8 Foreldrar mínir: Endurminningar nokkurra Íslendinga vestan hafs, Finnbogi Guð-
mundsson bjó til prentunar, Reykjavík: Bókaútgáfan Minning, 1956.
9 Sama rit, bls. 119.
„VIð HÉRNA Í VESTRINU“