Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 124
123
arkvæði.8 Það var einstakur heiður fyrir Huldu að hljóta verðlaun fyrir
kvæði sitt og fá það flutt á helsta minningarstað þjóðarinnar.9
Brottfluttir Íslendingar og afkomendur þeirra í Vesturheimi gátu að
sönnu fagnað með ættingjum sínum heima á Fróni en viðhorf þeirra hlaut
að vera annað en Austur-Íslendinga sem höfðu hvergi farið, meira að segja
þeirra sem höfðu lagt mest á sig að varðveita íslenskt þjóðerni sitt. Til þess
voru þó síðri möguleikar í Bandaríkjunum en Kanada þar sem Íslendingar
voru færri og bandarísk stjórnvöld ráku nokkuð einarða aðlögunarstefnu
gagnvart innflytjendum þegar fram í sótti.10
Bandaríski sagnfræðingurinn Frederick Jackson Turner hélt því fram í
lok 19. aldar í frægum fyrirlestri að hinar miklu sléttur Miðvesturríkjanna
hefðu gert innflytjendurna frá Evrópu að Ameríkönum. Þar hefðu þeir
tekið þátt í nýbyggjaralífinu á landi sem þeir töldu sér frjálst til afnota,
ónumið og ódýrt. Turner segir að þetta frelsi hafi gert þá að fylgismönnum
hinnar miklu hugsjónar Ameríku, lýðræðis.11 Annar bandarískur sagn-
fræðingur, Jon Gjerde, leit á hinn bóginn svo á að „nýlendurnar“ sem
hópar innflytjenda mynduðu á sléttunum hefðu gert þeim kleift að halda í
trú, siði og venjur sem þeir töldu frá gamla landinu komnar, og rækta með
sér það sem hann kallaði aukasjálfsmynd (e. complementary identity). Þeir
hafi bæði virt bandarískar stofnanir og haldið í þjóðareinkenni sín.12
En alls ekki allir innflytjendur frá Íslandi námu land til búskapar og
sumir sem það gerðu bjuggu ekki á sömu slóðum og flestir landa þeirra.
Þeir áttu því ekki jafngreiða leið að því að varðveita þjóðerni sitt og tungu.
Engu síður hafa þeir varðveitt minningar og reynslu frá gamla landinu og
miðlað til afkomenda sinna. Þeir hafa því bæði sjálfsmynd sem Íslendingar
og sem innflytjendur í öðru landi. Vafalaust má segja að allir útflytjendur
þrói með einum eða öðrum hætti með sér tvöfalda meðvitund. Þeir sjái
hlutina í a.m.k. tvennu ljósi, frá tveimur sjónarhólum – heimalandsins og
8 Sjá t.d. Sveinn Yngvi Egilsson, „Land, þjóð og tunga í ljóðum þjóðskálda Íslands
og Slóveníu“, Són 11 (2013), bls. 87–97.
9 Sjá Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið, bls. 188–189.
10 Birna Arnbjörnsdóttir, North American Icelandic: The Life of a Language, Manitoba:
University of Manitoba Press, 2006, bls. 34–35; Bernard Spolsky, Language Policy,
Cambridge: Cambridge University Press, 2004, bls. 93–96.
11 Sjá Jon Gjerde, The Minds of the West. Ethnocultural Evolution in the Rural Middle
West 1830–1917, Chapel Hill: University of North Carolina Press, 1997, bls.
4–6.
12 Gjerde, The Minds of the West, bls. 60.
„SYNG, FRJÁLSA LAND, ÞINN FRELSISSöNG“