Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 136
135
í skjóli bandarísks hervalds og með samþykki stórveldisins. Þannig eru
„Söngvar helgaðir þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944“ ljóðaflokkur sem
heldur í heiðri allar goðsagnir þjóðfrelsisbaráttunnar, heldur fram karl-
mennskuímyndum og jaðrar konur en þegir yfir sannleikanum um stöðu
Íslands í heiminum. Það má því segja að ljóðmælandinn hermi eftir röddu
húseiganda, „harðstjórn og fals“ var alls ekki dáið eins og staðhæft er í
ljóðaflokknum.
Guðni Elísson hefur haldið fram þeirri skoðun að Unnur Benediktsdóttir
Bjarklind sé „sorglegt dæmi um skáldkonu sem bókmenntahefðin nær að
móta og stjórna og draga þannig úr þroska hennar“.59 Eins og mennta-
menn höfðu skapað þjóðernislega söguskoðun og ímynd Íslendingsins
að talsverðu leyti í sinni mynd höfðu þeir búið til ákveðið þjóðlegt bók-
menntaúrval sem birtist ekki síst í Íslenzkri lestrarbók sem Sigurður Nordal
tók saman og var fyrst gefin út 1924. Þar var enginn kvenrithöfundur.
En þegar bókin kom í þriðju og endurskoðaðri útgáfu 1942 hafði Hulda
fengið þar inni, ein kvenna, með kvæði sitt „Krosssaum“. Hulda lét heldur
ekki hjá líða að vísa í þessar „heilögu ritningar“ í ljóðaflokki sínum. Strax í
fyrsta ljóðinu notar hún rómantíska svaninn, sem var t.d. þekktur úr ljóði
Steingríms Thorsteinssonar „Svanasöngur á heiði“, bæði í myndlíkingu og
mynd.60 Í öðru ljóðinu vísar hún í Njáls sögu með orðunum „og ennþá er
fegurst „Hlíðin““. Raunar er þetta einnig vísun í kvæðið „Gunnarshólma“
eftir Jónas Hallgrímsson. Þar eru einnig vísanir í hin frægu kvæði Jónasar
„Ísland“ og „Ferðalok“ og í „Úr Íslendingadagsræðu“ Stephans G. Í loka-
erindi ljóðaflokksins er enn ein vísunin í bókmenntakanónuna– fánasöng
Einars Benediktssonar: „Syng frelsissöngva, frjálsa þjóð,/ við fánans bjarta
þyt“. Það er því ekki að undra að dómnefndin um hátíðarkvæði við lýðveld-
isstofnunina 1944 hafi fallið fyrir ljóðaflokknum, sem svo rækilega stað-
festi bæði hina þjóðernislegu söguskoðun, ímynd íslenskrar karlmennsku
og textaval bókmenntastofnunarinnar. Unnur Benediktsdóttir Bjarklind
var huldan sem kvað fyrir íslenska karlmenn það sem þeir vildu heyra.
59 Guðni Elísson, „Líf er að vaka en ekki að dreyma“, bls. 82.
60 Svanurinn gæti einnig verið sóttur til líkingarinnar af norrænum ríkjum sem fimm
svönum í kvæðinu „Svanerne fra Norden“ eftir danska rithöfundinn Hans Hartvig
Seedorff Pedersen, sem var frá árinu 1936 og birtist fyrst á degi Norðurlandanna
27. október sama ár. Sjá http://www.norden.org/is/utgafa/utgefid-efni/2008-416.
Í ljóðaflokknum er einmitt minnst á norrænt bræðraband.
„SYNG, FRJÁLSA LAND, ÞINN FRELSISSöNG“