Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 194
193
hátíðin að íhaldssömum flokkadráttum sem skerði lífsgæði þeirra sem hún
á að hampa, því samkvæmt Ármanni er fólk einfaldlega fólk og ást ekkert
annað en ást, sama hver á í hlut.5 Með þeirri sýn lítur hann framhjá því að
hugmyndir um fólk og ást grundvallast ekki á mannlegu eðli; að kryfja þær
krefst menningarlæsis.
Gagnrýni Ármanns á að ýmsu leyti rétt á sér og hægt er að taka undir
þá skoðun að það sé óæskilegt að skilgreina einstaklinga út frá kyni þeirra
sem þeir stofna til ástarsambanda með. Þó má ekki gleyma því að þessi
hugtök, hommi, lesbía, samkynhneigð og hinsegin fólk, voru tekin í notk-
un af hinsegin fólki sem vildi bregðast við hugtökum eins og kynvilling-
ur og kynskiptingur sem urðu til á tímum þegar þátttaka hinsegin fólks í
opinberri umræðu var lítil sem engin, nema þá í dulargervi. Síðarnefndu
hugtökin voru þannig sköpuð af meirihlutasamfélaginu til að hægt væri að
ræða um hinsegin fólk sem afbrigðileg frávik. Þótt Ármann leggi neikvæða
merkingu í hugtökin samkynhneigð, hommi og hinsegin6 voru þau tilraun
hinsegin fólks til að ná tökum á orðræðunni og valdi til að fá að skilgreina
sig sjálft.7 Auðvitað má deila um það í dag hvort nokkur róttækni fylgi
þessum orðum yfirleitt, sérstaklega hugtakinu hinsegin sem felur óneit-
anlega í sér ákveðna framandgervingu eins og þegar Ármann bendir á „að
til sé eðlilegt og venjulegt fólk sem sé þá andstæðan við „hinseginfólk““.8
Notkun Ármanns á gæsalöppum í þessari tilvitnun, þar á meðal fjarvera
þeirra, sýnir e.t.v. hvorn hópinn hann telur vera eðlilegan og viðmiðið og
hvor er dreginn í efa. Ef afbyggja á hugmyndina um „hinseginfólk“ hlýtur
að fylgja með sú krafa að afbyggja hugmyndina um „venjulegt fólk“. Síðan
má velta fyrir sér hvort verið sé að viðhalda aðgreiningu fólks í hinsegin
annars vegar og sís/gagnkynhneigt hins vegar og þar með ítreka og styrkja
flokkunina og þær neikvæðu hugmyndir sem í henni felast. En þá er mik-
ilvægt að skilja að hinsegin ástir, hinsegin barátta og gleðigöngur eiga sér
ekki stað í tómarúmi.
Kyn og kynhneigð hefur menningarlega merkingu og því þarf að skoða
baráttuna og hinsegin fólk í ljósi þeirrar stöðu sem það hefur innan sam-
5 Ármann Jakobsson, „Judy Garland er löngu dauð“, bls. 202–203 og 207.
6 Sama rit, bls. 203–204.
7 Þorvaldur Kristinsson, „Að hasla sér völl“, Samtokin78.is, 2000, sótt 12. mars 2014
af http://www.samtokin78.is/greinasafn/samfelag-og-saga/76-ad-hasla-ser-voll.
8 Ármann Jakobsson, „Judy Garland er löngu dauð“, bls. 202.
GLIMMERSPRENGJAN SEM EKKI SPRAKK