Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Side 73
72
upp sjálf heldur verður hún til í tengslum við hina.46 Í huga einstaklingsins
er ferlið þó í sífelldri endurnýjun, við nýjar aðstæður hverju sinni, þar sem
hann þarf stöðugt að gera upp við sig hvaða stöðu hann hefur.
önnur gagnleg nálgun miðast við hugmyndir Zygmunts Bauman sem
segir að sjálfsmyndasköpun sé tvírætt ferli og virki í raun sem tvíeggjað
sverð. Annars vegar geti sjálfsmyndir verið réttlæting einstaklinga á eigin
sjálfsvitund, byggðar á því sem sé frábrugðið, en hins vegar geti ávallt
komið til einhver annar sem beiti sverðinu í hina áttina – þ.e. að einstak-
lingnum – og gefi honum þar með eins konar auðkenni.47
Fjölmargar birtingarmyndir þessara tvíræðu ferla sjálfsmynda og auð-
kenna má sjá í sendibréfum íslenskra vesturfara. Jóhannes Halldórsson
tók t.d. upp nafnið John H. Frost eftir að hafa fengið það sem uppnefni
í Bandaríkjunum.48 Sigurður Johnsen fékk einnig sinn skerf af því að vera
settur í ákveðinn hóp af þeim sem voru álitnir ofar en hann í samfélaginu,
eins og birtist í skrifum hans frá aprílmánuði 1907: „meðan maður er
greenhorn sem þeir innfæddu kalla mann, þegar maður getur ekki talað
[ensku], þeir nota sjer af því, gefa manni lítil laun, og harða vinnu, enn jeg
hef verið heppinn hvað það snertir“.49 Auðkennið „greenhorn“ var gjarnan
gefið þeim sem þóttu vera nýgræðingar eða byrjendur í samfélagi Norður-
Ameríku og það var ekki óalgengt að íslenskir innflytjendur upplifðu sig
sem græna í gegn meðal annarra. Að því leyti var sjálfsmynd þeirra byggð á
tveimur tungumálum, íslensku og ensku, en einnig hugmyndum um græn-
ingjahátt og fávisku. Sú orðræða gat ennfremur snúist yfir í að íslenskir
innflytjendur töluðu með sama hætti um aðra innflytjendur frá Íslandi.50
Græningjaháttur var álitinn viðloðandi þá sem voru nýkomnir til Nýja
heimsins og voru ekki vel að sér í ensku eða öðrum þáttum samfélagsins.
öðru fremur snerist orðræðan um staðsetningu innan ákveðins stigveldis
46 Einnig mætti nota orðið „uppfinning“ í stað „upphugsun“, þó að það henti kannski
betur um efnislega og vélræna hluti heldur en huglæga. Sbr. Jacques Derrida,
Psyche. Inventions of the Other, 1. bindi, ritstj. Peggy Kamuf og Elizabeth Rotten-
berg, Stanford: Stanford University Press, 2008, bls. 45.
47 Bauman, Identity, bls. 76.
48 Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, handritadeild [hér eftir Lbs.] 4416, 4to.
Bréfasafn Benedikts Jónssonar frá Auðnum, Jóhannes Halldórsson, 21. október
1878.
49 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.2, Sigurður Johnsen, 28. apríl 1907.
50 Sjá t.d. Lbs. 150 NF, Bréfasafn Torfa Bjarnasonar, askja 36, Lárus Bjarnason, 29.
nóvember 1874; Lbs. 150 NF Bréfasafn Torfa Bjarnasonar, askja 20, Guðmundur
Guðmundsson, 29. júní 1873; Bréf Vestur-Íslendinga,1. bindi, bls. 21, 138 og 161.
óLAfuR ARnAR svEinsson