Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 194
FYRIR HVERjA ERu FRÆðIn?
199
skiptingin er þá yfirleitt ekki í svo föstum skorðum að greitt sé fyrir hvert verk
með sama hætti. Sem dæmi um hið síðarnefnda má nefna heimilisstörf, stjórnun
fyrirtækja og sérfræðiráðgjöf. Hér ætla ég þó að einblína á þekkingarsköpun og
verkaskiptingu innan hennar.
Að sumu leyti er þekkingarsköpun eins og hvert annað verk sem við getum
skipt á milli okkar. Þegar einn einstaklingur spyr annan hvað klukkan er þá er
viðkomandi með óbeinum hætti að biðja viðmælanda sinn um að öðlast þekk-
ingu á hvað tímanum líður og koma henni svo áleiðis til sín. Í flestum tilvikum
hefði sá sem spurði getað leitað sjálfur að klukku og komist þannig yfir þessa
þekkingu án þess að trufla viðmælanda sinn en metur það svo að auðveldara sé
fyrir hinn síðarnefnda að öðlast þekkinguna og miðla henni áfram í staðinn. Við-
komandi er því í raun að biðja viðmælanda sinn um að vinna fyrir sig ákveðið
þekkingarlegt verk með það í huga að þessi verkaskipting spari tíma og fyrirhöfn.
Á móti er viðkomandi vonandi reiðubúinn að vinna sams konar verk fyrir við-
mælanda sinn síðar meir. Að þessu leyti er þekkingarsköpun því eins og hvert
annað verk sem við getum skipt á milli okkar.
Eitt af því sem er á hinn bóginn sérstakt við verkaskiptingu þekkingarsköp-
unar er að afurðin af þessu verki – það er að segja þekkingin – er ekki takmörkuð
gæði heldur það sem við getum kallað afritanleg gæði. Ef einn einstaklingur öðlast
tiltekna þekkingu og kemur henni áleiðis til annarrar, þá hverfur þekkingin ekki
úr huga fyrri einstaklingsins. Þvert á móti öðlast fólk oft dýpri skilning á því sem
um er að ræða við það að koma þekkingu sinni áleiðis til annarra. Að þessu leyti
er þekking gjörólík flestum efnislegum gæðum, því almennt er sá sem lætur til-
tekin efnisleg gæði af hendi um leið að missa þau frá sér. Efnisleg gæði eru sem
sagt almennt ekki afritanleg.23
Hins vegar er því ekki að neita að það að miðla þekkingu til annarra er oft
dálítið meira mál en orðið „afritun“ gefur til kynna, því það getur verið bæði
erfitt og tímafrekt að koma þekkingu áleiðis til annarra. Margt af því sem við
vitum er erfitt að koma orðum að eða krefst langra útskýringa, og viðtakandi
þekkingarinnar gæti þurft að heyra útskýringuna mörgum sinnum áður en við-
komandi skilur hana. Þetta er í raun og veru það sem flestallt nám snýst um – að
einhver einstaklingur, kennarinn, komi þekkingu sinni áleiðis til annarra, nem-
endanna. Og af því að þetta ferli er bæði erfitt og tímafrekt þá er augljóslega ekki
23 Á þessu gætu verið undantekningar ef hugtakið efnisleg gæði er skilgreint nægilega vítt. Til
dæmis gæti einhver viljað telja tölvuskjöl til efnislegra gæða en þau eru ljóslega afritanleg.
ég ætla ekki að rökstyðja tiltekna skilgreiningu á efnislegum gæðum hér til að skera úr
um þetta því aðalatriðið er að öll vitsmunaleg gæði, en í mesta lagi sum efnisleg gæði,
virðast vera afritanleg.