Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 195
FInnuR DEllSén
200
hægt að láta alla læra allt. Það þarf að velja og hafna, bæði með tilliti til þess hvað
á að læra og hver eigi að læra það.
Annað mikilvægt atriði er að þekkingarsköpun krefst gjarnan sérhæfingar, og
sérhæfingin felst oft einmitt í því að búa nú þegar yfir þekkingu sem getur legið
nýrri þekkingu til grundvallar. Fræg eru orð Isaacs Newtons að hafi hann séð
lengra en aðrir sé það vegna þess að hann hafi staðið á herðum risa. Með því átti
Newton við að hann gat byggt sínar aflfræðikenningar og ítarlegar útskýringar
á náttúrufyrirbærum á kenningum og skýringum forvera sinna – manna á borð
við Kóperníkus, Kepler, Galíleó og Descartes. Almennt má segja að þekking geti
af sér meiri þekkingu og að oft sé það forsenda þekkingarsköpunar að búa nú
þegar yfir tengdri þekkingu til að byggja hina nýju þekkingu á.
Þessi tvö grundvallaratriði um þekkingarsköpun – að það er ekki hægt að
láta alla læra allt, og að þekkingarsköpun krefst þess oft að maður búi nú þegar
yfir mikilli þekkingu – gera saman að verkum að þeir sem hafa það hlutverk í
samfélaginu að skapa nýja þekkingu munu óhjákvæmilega þurfa að búa yfir meiri
þekkingu en aðrir, að minnsta kosti á sínu sérsviði. Annars gætu þeir einfaldlega
ekki sinnt sínu hlutverki við að skapa nýja þekkingu, því ólíkt newton hefðu þeir
engar axlir til að standa á og þar með sjá lengra en aðrir. Í stuttu máli má því
segja að ósköp eðlileg og rökrétt þekkingarleg verkaskipting krefjist þess að sumir
öðlist meiri þekkingu en aðrir á tilteknum sviðum. Það á ekki síst við um aka-
demíska rannsakendur, það er að segja fræðafólk.
Þegar öllu er á botninn hvolft er það því sköpun og miðlun þekkingar til
annarra – ekki það að öðlast þekkingu fyrir sjálfan sig – sem réttlætir ákveðna
þekkingarlega „misskiptingu“, ef svo má að orði komast, milli fræðafólks og
meginþorra almennings.24 Þetta þýðir hins vegar ekki að þekking fræðafólks sé á
einhvern hátt meira virði í sjálfu sér – að hún hafi meira eigingildi – en þekking
annarra. Að því marki sem það er mikilvægara að fræðafólk hafi meiri þekkingu
á tilteknum sviðum en hinn almenni borgari þá er það aðeins vegna þess að með
því móti getur fræðafólkið skapað nýja þekkingu sem svo er hægt að miðla til
annarra, ekki síst til almennings. Með öðrum orðum hefur þekking fræðafólks
meira nytjagildi undir vissum kringumstæðum, það er að segja þegar sköpun og
miðlun nýrrar þekkingar veltur á því að búa nú þegar yfir sérhæfðri þekkingu.
Með þetta í huga getum við nú útskýrt í hvaða skilningi hægt er að segja að
24 Gæsalappirnar eru við hæfi hér vegna þess að „misskiptingin“ sem verið er að vísa til
snýst vitaskuld aðeins um þekkingu á tilteknum afmörkuðum atriðum sem viðkomandi
fræðafólk hefur sérhæft sig í en meginþorri almennings ekki. Vert er að hafa í huga að
við búum öll yfir þekkingu sem flestir aðrir hafa ekki, svo sem um það hvað við erum að
hugsa á hverri stundu, hvað við borðuðum í morgunmat og svo framvegis. Þekkingarleg
„misskipting“ er því víða og ekki endilega ámælisverð.