Skírnir - 01.01.1938, Blaðsíða 151
Skírnir]
Gunnar Gunnarsson.
149
gripið til: að láta hlutlausan sjónarvott segja frá. Sagan
gerist í Reykjavík 1918, bjarminn af eldinum í Kötlu lýs-
ir upp dökkar haustnæturnar, meðan vofa spönsku veik-
innar stikar um götur bæjarins. Við þennan skuggalega
bakgrunn ber leikendur sögunnar: lækninn Grím Elliða-
grímsson, konu hans og óvin hans, prófessor Pál Einars-
son. Hér er reynt á lífstrú læknisins, og þegar óvinur hans
kemst að því, að læknirinn lifir í raun og veru í traustinu
á konu sinni, þá sér hann sér leik á borði að spilla milli
þeirra með dylgjum, sem eru eins eitraðar og þær eru
ósannar. En Mörður nær marki sínu: læknirinn missir
vitið og verður á sjöunda degi að fara inn á Klepp.
Einvígi þeirra læknis og prófessorsins minnir talsvert
á þá hólmgöngu sálnanna, sem Strindberg var meistari í
framar öllum öðrum. Gunnar mat Strindberg mikils, las
hann á sínum reynsludögum (sbr. Hugleik den Haardt-
sejleride, bls. 30) og hefir minnsta kosti skrifað eitt leik-
rit í anda hans og expressionismans: Dýrið með dýrðar-
Ijómann, sem hér er ekki rúm til að ræða.
Ef litið er um öxl til þessara verka Gunnars, virðist
manni, að það sé tvennt, sem höfundurinn hefir veruleg-
an áhuga á.
Hið fyrra er heimspekin, leitin að trú, leitin að lausn-
inni á hinni miklu gátu lífsins. Þessi leit að trú var ekki
eingöngu eðlileg afleiðing af uppeldi Gunnars og reynslu,
heldur átti hún líka rætur sínar að rekja til hins bezta í
bókmenntum Norðurlanda, ritum mannaeins og Björnsons,
Ibsens og Strindbergs. Það kemur ekki málinu við, þótt
Gunnar fyndi ekki sjálfur það svar, sem hann hefði ósk-
að, hann hafði að minnsta kosti haft kjark til að horfast
í augu við ógæfuna og þrjózkast við örlögunum.
Hitt er áhuginn á hinni sálfræðilegu hlið mannlýsing-
anna. Stundum er engu líkara en hann geri tilraunir með
persónur sínar, eins og t. d. prestinn í Strönd lífsins og
lækninn í Sælir eru einfaldir. Yfirleitt hættir hinum veiku,
klofnu mönnum til að bresta í meðförum hans. Þeir, sem
af lifa, gera það venjulegast fyrir það, að ekkert getur