Skírnir - 01.01.1938, Blaðsíða 203
Skírnir]
Ritdómar.
201
ur af fornum íslendingum. Þessar tvær sagna-tegundir snertast
víða, svo að þetta væri ekki nema eitt af mörgum líkum atriðum.
Annars er rannsókn þessara efna enn á byrjunarskeiði. Gísls þátt
hyggur próf. S. N. runninn frá frásögn Gunnlaugs munks í Jóns
sögu helga, og virðist mér hann færa fyrir því úrslitarök. Hafi höf.
einkum breytt frásögn Gunnlaugs í þá átt, að gera hana sennilegri,
jafnframt því sem hann hafi eða geti hafa stuðzt við fleiri heimildir.
Eitt atriði vil eg nefna, sem mér hefir alveg nýlega dottið í hug
önnur lausn á, heldur en kemur fram í formálanum. Próf. S. N.
kemst að þeirri niðurstöðu, að um herferð sunnanmanna norður
hafi aldrei staðið neitt í Heiðarvíga sögu og eigi heldur um Borg-
arvirki. Aðalröksemdin fyrir þessu er sú, að frásögn um þetta hefði
eigi komizt fyrir á hinu eina blaði, er vantar í skinnhandrit sög-
unnar, en það kvað sjást með vissu, að eigi vanti nema eitt og sé
það skorið úr. Á ciij. bls. telur hann það, sem eitthvað hlýtur að
hafa staðið um í eyðunni, og er það alveg rétt, að það „virðist
ærið efni í ekki lengra mál“, en það mætti líka láta sér detta í hug,
hvort jafnvel það væri ekki of mikið til þess að rúmast á hinu eina
blaði. Höf. hlýtur þá a. m. k. að hafa verið ótrúlega fáorður um
eftirmálin. Við það bætist, að menn gætu með nokkrum rökum bú-
izt við því, að enn fleira hefði staðið í eyðunni, t. d. að þeir Barði
hefðu látið sækja líkin suður á heiðina og vitja tillaga þeirra, er
þeim voru lófuð í setuna, að þeim hefði orðið ólið að hinum sunn-
lenzku kviðburðum (sbr. 286. bls.), um hve Alþingi var fjölmennt
eftir Heiðarvíg (sbr. Gunnlaugs sögu, ísl. fornr. III, 95.—96. bls.),
e. t. v. meira um liðveizlu Guðmundar ríka og Snorra goða heldur
en nú sést af sögunni (sbr. Eyrb.) og fleira. Móti því verður held-
ur varla borið, að Borgarvirki hlýtur að hafa verið gert í stór-
deilum á milli héraða, þar sem Húnvetningar hafa verið öðru meg-
*n> og það er einstaklega líklegt, að það hafi einmitt verið hinar
sömu deilur, sem Heiðarviga saga segir frá. Mér virðast því veru-
legar líkur til þess, að eyðan sé stærri í sögunni heldur en handritið
gefur í skyn, en hvernig er hægt að koma því saman? Hvers vegna
hefir eitt blað verið skorið innan úr kveri? Eg sé eigi nema eina
skynsamlega skýringu á því: Blaðið hefir verið að mestu eða öllu
leyti autt, og einhver hefir gripið til þess, sem verið hefir í bók-
fellshraki. Eins og próf. S. N. segir, hefir hið forna handrit frá 13.
öld „verið orðið svo máð og lasið á síðara hluta 14. aldar, að þörf
hefir þótt á að endurnýja það að nokkru leyti“. Þar sem önnur
hönd hefir hætt (hún getur hafa náð dálítið aftur á hið brautskorna
blað), hefir verið týnt úr hinu forna handriti og eigandi þriðju
handar þess vegna skilið eftir eyðu, án þess að vita, hvort hið glat-
aða efni kæmist þar fyrir. Af þessum sökum finnst mér fullsterk-
lega að orði kveðið, að munnmæli þau, sem Páll Vídalín tilfærir