Skírnir - 01.01.1938, Blaðsíða 170
168
Björn Gunnlaugsson og Uppdráttur íslands. [Skírnir
in eiga helzt að vera svipuð að stærð — til þess að mikil
nákvæmni fáist. Til þess að hægt sé að sjá milli mælistað-
anna, verða þeir oftast að vera á hæstu fjallatindum, og
getur það verið miklum erfiðleikum bundið að finna hent-
uga mælistaði, og oft kostað margar fjallgöngur.
Frá þessum þríhyrningamælistöðum má einnig taka
stefnu til annara staða. Ef stefna er tekin til einhvers
staðar frá tveim mælistöðum, er oftast nær hægt að reikna
út legu hans eða teikna á uppdráttinn. Oft er blað það,
sem frumuppdrátturinn á að teiknast á, haft með á mæl-
ingastaðina. Þar er það sett á borð, sem snúið er rétt,
þannig að norður á uppdrættinum vísi raunverulega í
norður. Reglustika er lögð á uppdráttinn, og áfastur við
hana er kíkir, þannig að brún reglustikunnar og kíkirinn
vísa í sömu stefnu. Ef kíkinum er beint á ákveðinn stað,
og strik dregið á uppdráttinn eftir brún reglustikunnar,
merkir strikið stefnuna til staðarins á uppdrættinum. Þeg-
ar stefna til staðar hefir þannig verið miðuð frá tveim
mælistöðum, afmarkast staðurinn á uppdrættinum, þar
sem stefnulínurnar skerast. Þegar þessi aðferð er notuð,
er sagt, að mælt sé á mæliborði. Á þennan hátt má af-
marka eins marga staði á uppdráttinn og óskað er, en
aldrei verða svo margir teknir, að ekki væri hægt að taka
fleiri. Mælingamaðurinn fyllir út á milli punktanna eftir
augnmáli og gerir uppdrátt úr þessum sundurlausu punkt-
um. Reynir þar því meira á leikni mælingamannsins, sem
punktarnir eru færri.
Á sjókorti er mjög þýðingarmikið, að sjálf strandlínan
sé nákvæm, og þarf því að mæla marga punkta á henni.
Enn fremur verða áberandi fjallstindar og hyrnur að vera
rétt settar á kortið, svo að sjófarendur geti tekið mið til
þeirra. Þegar fjær dregur sjó, fækkar mjög stöðum þeim,
sem hafa þýðingu fyrir sjómenn. Strandmælingarnar voru
fyrst og fremst gerðar vegna siglinganna, og því ekki mælt
annað en það, sem hafði þýðingu fyrir þær.
Að strandmælingum þessum unnu, eins og áður er sagt,
margir menn í 18 ár. Á uppdráttunum er getið átta manna,