Uppeldi og menntun - 01.01.1997, Page 88
SKAPAR ÆFINGIN MEISTARANN?
allir sátu á meðan og biðu eftir að röðin kæmi að þeim. Framburðurinn var upp og
ofan og hún átti erfitt með að fylgjast með.
Ég er nú kannski ekki með neina betri lausn, en svona heill tími! ... Hvað græddu
þau? Allavega að láta þau vinna eitthvað sjálf. Var ekki hægt að brjóta þetta upp
með einhverjum spurningum? (E/2)
A þessari einhæfu kennslu sá Elín þó eina undantekningu sem varð henni mjög
hugstæð og virtist koma til móts við væntingar hennar. Hún kom í kennslustund
þar sem nemendur voru að semja leikrit í hópum.
Þau unnu öll á fullu og voru ofsalega áhugasöm. Kennarinn gekk bara um og
fylgdist með. (E/2)
Elín hafði aldrei séð svona kennsluhætti og þetta sýndi henni nýja hlið á hlutverki
kennarans. Þrátt fyrir nokkur vonbrigði með skólaheimsóknirnar vöktu þær hana
til umhugsunar um ýmsa þætti sem snertu starfið í skólastofunni. Elín var augljós-
lega farin að gefa nemendum nánari gaum og velta fyrir sér mikilvægi þess að
virkja þá.
Elínu fannst hún fá allt of fá tækifæri til að vera úti í skólum. Hún gagnrýndi
námið í kennsluréttindunum fyrir að vera of fræðilegt, þetta væri allt gert svo
flókið. Henni fannst hún vera í lausu lofti. Hún hafði hafnað því sem hún þekkti en
fannst hún ekki fá neitt haldbært í staðinn. Elín batt því miklar vonir við æfinga-
kennsluna.
Það vantar meiri tengingu við raunveruleikann. Meira verklegt,já, að jylgjast meira
með. Við erum alltaf í þessutn kassa [háskólanum]. Eg vona að það kvikni eitthvert
Ijós í þessari æfingakennslu, að égfái þá alla vega nasasjón og geti tengt. (E/2)
Þrátt fyrir þetta var ljóst að hugmyndir Elínar um kennarann voru að taka á sig nýtt
form. I október sagði hún að hlutverk kennarans væri „að láta nemendur vinna, láta
nám eiga sér stað, vekja áhuga þeirra og virkja þá". Hugsanlega var þetta aðeins
bergmál frá kennslunni í kennslufræðinni og hún taldi sig ekki vita hvernig hún
ætti að fara að því að ná þessu fram. Henni fannst hún ekki vera vel búin undir
æfingakennsluna, fannst vanta að það væri talað um hvernig ætti að kenna hennar
grein, en kennslufræði tungumála var ekki kennd fyrr en á vorönn.
Elín fór til æfingakennara sem var mjög reyndur og þekktur fyrir að halda uppi
ströngum aga. Henni fannst hann ganga í berhögg við flest sem sagt var í kennslu-
fræðunum og það gerði hana óörugga og vakti hjá henni togstreitu:
... íæfingakennslunni, hún var svo hörð. Átti ég að vera eins og hún eða átti ég að
vera einhvern veginn öðruvísi. Hérna [í háskólanum] er sagt að samband kennara
og nemanda sé svo mikilvægt. (E/3)
Elín var í leit að fyrirmynd. Einhverjum sem hún gæti líkt eftir. Það urðu henni því
vonbrigði að finna ekki þessa fyrirmynd í æfingakennaranum. Hún taldi enn að
verið væri að gera kennsluna miklu flóknari en efni stæðu til og ríghélt í sína
einföldu mynd. Hún átti því erfitt með að gera sér grein fyrir hvað hún hefði borið
úr býtum í æfingakennslunni. Henni fannst hún ekki hafa séð það ljós sem hún
vonaðist eftir.
Mér finnst ég vita eitthvað meira [eftir æfingakennsluna]. Samt er þetta náttúrlega
ekki eins voðalega flókið eins og verið er að segja manni að þetta sé, þú veist svona
86