Árbók Háskóla Íslands - 02.02.1923, Blaðsíða 150
140
VÖLUSPÁ
bjarga Baldri, verja hann bana, kalla hann úr Helju, Höður
er veginn, Loka er hegnt, En alt er þetta annaðhvort mis-
ráðið, eða einungis til bráðabirgða. Heimurinn er spiltur.
Hann verður ekki skírður, nema í eldi.
Lýsingin á kvölum vondra manna og vargöldinni á undan
ragnarökum kemur í Völuspá eins og þetta væri afleiðingar
þess, sem á undan er farið. Stjórnendur heimsins hafa gert
sig seka í óhæfu, þessvegna er heimurinn af göflum genginn.
En i raun og veru er lifsskoðun skáldsins ekki sköpuð með
afálykt, heldur tilálykt. Hann ályktaði ekki: af því að goðin
eru spilt, hlýtur jörðin að vera dauðans skuggadalur —
heldur: slikum heimi sem þessum hlýtur að vera stjórnað
af ófullkomnum goðmögnum. Hann þekti mannlífið. Það
fullnægði ekki siðakröfum hans. Goðin þekti hann ekki. En
honum datt ekki i hug, að slíkt djúp væri milli goða og
manna, að ekki myndi að lokum einn dómur yfir alla ganga.
I því efni er hann alheiðinn. Hann tók sundurlausar goð-
sögur alþýðunnar: um erjur goða og jötna, dauða Baldurs,
heimsendi, fall goðanna — hnitaði þær saman, gerði blind
örlögin sjáandi og siðferðið að örlögsíma tilverunnar.
Á þessari hugsanabraut var skáldið, þegar hann kyntist
kristninni sjálfri, kristniboðinu, sem í var fólgið hvorttveggja:
hin ægilegasta hótun og hið dýrðlegasta fyrirheit. Að öðrum
kosti hefði þau atriði, sem hann tók frá hinum nýja sið,
orðið nýjar bætur á gamalt fat, stungið í stúf við alla undir-
stöðu kvæðisins. Nú var hann maður til þess að færa sér
hið nýja Ijós í nyt — ekki til þess að varpa hinni heiðnu
lífsgátu frá sér, heldur til þess að ráða hana við birtu þess.
Hann niðurbraut ekki Ásatrúna, hann fullkomnaði hana.
Pvi verður Völuspá lífsheild, bæði frá sjónarmiði listar og
lifsskoðunar.
Baldur og Höður eiga það að miklu leyti Kristi að þakka,
að þeir verða drotnar hins endurfædda heims. Þó var sú
hugsun ekki ókunnug þeim mönnum, er aldir voru upp við
sögu Sigurðar Fáfnisbana, að sú væri ein leið til æðsta
frama að þola bana fyrir sakleysi. En með þessu móti sást
bjarmi af betra degi mitt i verstu spillingunni. Loka mis-
tókust ráðin ekki síður en óðni. Með vígi Baldurs ætlaði
hann að vinna goðunum höfuðgrand, en lyfti Baldri i raun
og veru á stig nýrrar fullkomnunar. Ekkert getur grandað
þeim, sem sjálfur er grandvar. Því munu einnig góðir menn
og eiðvandir lifa af ragnarök og njóta eilífs yndis.