Búnaðarrit - 01.01.1994, Page 53
Samskipti við Bændaskólann á Hvanneyri hafa einkum verið í tengslum
við leiðbeiningar við verkefnavinnu nemenda í framhaldsnámi, og hefur
þeirra verkefna, sem þar lauk, verið getið hér að framan. Einnig kom ég að
nokkrum námskeiðum við skólann.
I marsmánuði sótti ég nær hálfs mánaðar námskeið í búfjárkynbótum,
sem haldið var við tilraunastöðina á Foulum í Danmörku. Aóalleiðbein-
endur á þessu námskeiði voru Frakkinn Vincent Ducrocq og Daninn Daniel
Sörensen. Þetta námskeið sótti rannsóknarfólk frá öllum Norðurlandanna
auk Þýskalands, Frakklands og Austurríkis. Þarna var sérstaklega fjallað
um ýmsar aðferðir, sem í þróun hafa verið á síðustu árum, til að meta
erfðaáhrif fyrir eiginleika, sem ekki falla að hefðbundinni normaldreifingu.
Þar má benda á ýmsa mikilsverða eiginleika eins og sjúkdóma (eins og
mælingar eru þar framkvæmdar), endingu gripa og frjósemi hjá sauðfé.
Þetta var ákaflega góð tilbreyting og mikið nýtt þar að læra. Kostnaður
vegna þessa námskeiðs var greiddur af norrænu fé.
I lok nóvember var árlegur vinnufundur NBC um nautgriparækt haldinn
í Árósum. Þar var lagt fram gífurlega mikið af fróðlegu efni um þróun
nautgriparæktar á Norðurlöndunum. Það, sem vekur ef til vill mesta
athygli, er hinn gífurlega mikli munur, sem virðist vera á stöðu framleið-
enda í einstökum löndum. í tengslum við þennan fund notaði ég ferðina til
að kynna mér stöðu í sambandi vió fyrirhugaðan innfiutning á fósturvísum
af holdanautum frá Danmörku. Einnig fékk ég þar upplýsingar í sambandi
við reynslu þeirra við að taka í notkun amerískar aðferðir við mat á
útlitseiginleikum mjólkurkúa, en þessar aðferðir eru nú að ryðja sér til
rúms í flestum löndum Vestur-Evrópu. í þessari sömu ferð fór ég einnig til
Noregs að Landbúnaðarháskólanum á Ási, þar sem ég ræddi við ýmsa aðila
um málefni nautgripa- og sauðfjárræktar, en samt fyrst og fremst hug-
myndir í sambandi við hugsanlegan flutning á íslenskum nautgripum til
samanburðartilrauna þar í landi.
Ég vil að lokum þakka fjölmörgu samstarfsfólki einkar ánægjulegt
samstarf á árinu. Þar skal sérstaklega nefna héraðsráðunauta og fjölda
bænda auk starfsfólks landbúnaðarstofnana hér í húsi og annarra slíkra
stofnana auk landbúnaðarráðuneytis.
47