Búnaðarrit - 01.01.1994, Page 85
Fiskeldi
Óskar ísfeld Sigurðsson
Síðast liðið ár var annasamt hjá mér og
viðburðarríkt í fiskeldinu. Enn sem fyrr var
framleiðsla á laxi stærsta grein fiskeldis hér á
landi.
Framan af árinu voru markaðshorfur
nokkuð góðar fyrir lax, verðið var um 30 %
hærra en það var 1992, og almennt var búist
við, að það væru alla vega tvö ár í næstu
niðursveiflu. En hún kom miklu fyrr en við
var búist. Strax á haustmánuðum varð ljóst,
að framleiðsla Norðmanna yrði meiri en
reiknað hafði verið með. Var það aðallega
vegna minni affalla vegna sjúkdóma, góðra
umhverfisskilyrða, bætts fóðurs og breyttra fóðrunaraðferða.
Þessi framleiðsluaukning leiddi síðan til verðlækkunar, sem aftur leiddi
til þess, að Evrópubandalagið setti lágmarksverð á lax.
Þrátt fyrir, að lægð hafi komið í laxmarkaðinn fyrr enn við var búist, er
ýmislegt jákvætt að gerast í íslenskum laxeldisstöðvum. Framleiðnin í
stöðvunum hefur aukist, afföll hafa minnkað, meira af laxi er nú bólusett
en áður, nýjar, íslenskar fóðurgerðir hafa komið á markað, og flestar
strandeldisstöðvamar eru með norskan lax í eldi. Gert er ráð fyrir, að fyrsta
slátrunin á kynbættum, íslenskum laxi verði árið 1997.
Heimtur í hafbeit á laxi voru hærri en nokkur síðast liðin ár, en þó ekki
eins miklar og vonast var eftir.
Bleikjueldið gekk nokkuð vel á árinu, þó að slátrun bleikju yrði ekki
eins mikil og gert var ráð fyrir, og eru birgðir af þessum sökum meiri nú
um áramót en áður. Þrátt fyrir, að bleikjueldi sé enn á þróunarstigi, fjölgaði
enn bleikjueldisstöðvum, og var mest fjölgun smárra stöðva á lögbýlum.
Nú munu vera yfir 50 stöðvar með bleikju í eldi á einhverju stigi lífsferils
bleikjunnar.
79