Búnaðarrit - 01.01.1994, Page 226
Forseti sagði enn fremur:
„Það er ljóst, að sú breyting, sem nú hefur verið ákveðin á skipan
félagssamtaka bænda, leysir engan vanda af sjálfu sér. Hún er aðeins tæki,
sem við vonum, að geti orðið árangursrík. En þær vonir rætast því aðeins,
að það verði notað á réttan hátt. Framundan er því mikið verk að vinna.
Fyrst fyrir okkur, sem höi'um tekið þessa ákvörðun, að vinna eins og við
getum á næstu vikum og mánuðum að undirbúningi næsta áfanga, sein
verður fyrsti fundur á nýju Búnaðarþingi. Þar er að sjálfsögðu mestur
stuðningur af eindreginni afstöðu bændastéttarinnar til þessarar ákvörðunar.
En sú afstaða er einnig hvatning og krafa til okkar allra að gera allt, sem í
okkar valdi stendur, hvers og eins, að árangur verði sem bestur. En eins og
ávallt veltur árangurinn á því, hvernig að verki er staðið.“
Að lokum þakkaði forseti starfsliði Búnaðarþings.
Jón Ólafsson, aldursforseti kvaddi sér liljóðs, en hann hafði í upphafi
þingsins boðið Búnaðarþing velkomið til þinghalds í Gnúpverjahreppi. Nú
þakkaði hann þingforseta farsæl störf og búnaðarþingsfulltrúum og
starfsliði þingsins þeirra störf. Hann gat þess, að annað fyrsta búnaðarfélag
landsins hefði verið stofnað í Gnúpverjahreppi árið 1843. Hann rakti
minningar og kynni sín af búnaðarþingsfulltrúum, óskaði nýjum samtökum,
sem hann vonaði, að störfuðu á gömlum merg, allra heilla. Að lokum
þakkaði ræðumaður búnaðarmálastjóra og starfsfólki Búnaðarfélags Islands
góð störf.
Forseti þakkaði Jóni Ólafssyni hlý orð og sagði þingi slitið.
220