Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Blaðsíða 63
íþróttir: „Kiddi hlakkaði mikið til þess að keppa á mótinu þótt það væri
eingöngu íyrir sveitafólk." (62) Hann sækir kýrnar og rekur þær inn í fjós
en engu er lýst sem þar gerist, látið nægja að segja: „Kiddi undi sér vel í fjósinu
og aðstoðaði Jónas eftir fremsta megni.“ Aðalatriðið í fjósverkunum er þetta:
„Hann notaði hvert tækifæri, sem gafst, til þess að styrkja sig dálítið. Hann
hoppaði upp, greip um rör, sem var í loftinu í fjósinu, og hífði sig upp eins
oft og handleggirnir og hendurnar leyfðu.“ (56) Og all-nákvæmlega er lýst
hvernig hann æfir sig úti á túni:
Hann hélt boltanum á lofti með hægri og vinstri fæti til skiptis,
skallaði hann eins oft upp í loftið og hann gat og gerði síðan
magaæfingar. Hann var búinn að raða netakúlum upp með reglu-
legu millibili og rakti boltann á milli netakúlnanna með vinstri og
hægri fæti. Kiddi vissi að það þýddi ekki að æfa bara annan fótinn
því þeir fótboltamenn, sem væru jafnvígir á báðum fótum [svo],
ættu miklu meiri möguleika á að ná langt. (57)
En draumar um heimsfrægð í fótbolta fylla ekki allar vökustundir Kidda.
Hann hefur líka mikinn áhuga á stelpum. „Kannski verð ég bara kvennagull
þegar ég er orðinn stór,“ hugsar hann þegar hann er að byggja sig upp eftir
bömmerinn með sjálfsmarkið (22).
Uppskriffin að draumadís Kidda er á bls. 30 í fyrstu bókinni. Hann er
samferða henni í rútunni á leið í sveitina:
Hún var með sítt ljóst hár og stór augu. „Hún er eiginlega eins
falleg og prinsessa í ævintýrabók," hugsaði Kiddi með sér. Hann
mundi hreinlega ekki eftir að hafa séð fallegri stelpu. Hún tók hárið
í tagl og var með rautt band í því. GaOabuxurnar hennar voru ljósar
og brúnu skórnir hennar vel pússaðir.
Á næstu blaðsíðu kemur fram að augnaliturinn er blár. Þessi prinsessa heitir
Sóley Markúsdóttir og verður efni í dagdrauma frá fyrstu sýn — við hlið
fótboltans: „Kiddi lá lengi andvaka eftir að hann fór í háttinn og var ýmist
að hugsa um hvernig hann gæti orðið bestur í fótbolta eða hvernig hann gæti
kynnst Sóleyju betur.“ (43) Reyndar blandast þessar kenndir svo rækilega
saman að hann veit ekki hvað er hvað (64):
Þegar Kiddi kom sér fyrir á brautinni fann hann að hjartað sló örar
en venjulega og dálítill stingur var í maganum. Stingurinn var
svipaður og sá, sem hann fann þegar hann sá Sóleyju fyrst, og því
hugsaði Kiddi með sér að nú þekkti hann ekki muninn á ástarsting
og spennusting.
TMM 1995:3
61