Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Blaðsíða 61
vilja á hinn bóginn lesa sögur um bæði kyn og þó einkum sambandið milli
kynjanna.
Bæði kynin hafa eftir þessu að dæma þörf fyrir að sýna styrk sinn gagnvart
karlmönnum. Hetjur strákabóka sýna hann á virkan hátt — og vinsæl týpa
er kolbíturinn og veimiltítan sem ekkert getur í fyrstu en vinnur afrek að
lokum. Kvenhetjur ástarsagna eru oft óvirkir þolendur aðstæðna og verka
annarra, en það reynist oftar en ekki einmitt vera styrkur þeirra. Þær bjóða
sig ekki fram til ásta heldur eru þær hógværar og siðugar og laða karlhetjuna
að sér með því. Merkilegt rannsóknarefni er hvað áherslan er lögð á ólíka
eðlisþætti kvenpersóna í sögum fyrir karla og konur (annars vegar eru
aðlaðandi konur djarfar og lostafullar, hins vegar feimnar mýs), en það er
önnur saga.
I ástarsögum handa unglingsstúlkum er mikið lagt upp úr að orða tilfinn-
ingar og kenndir sögupersóna nákvæmlega: ást þeirra og þrá, blíðu, um-
hyggju, samúð, hlýju, vonir vegna annarra. I bókum handa unglingsstrákum
er tilfinningalífiðharkalega ritskoðað og eingöngu leyft dálítið úrval kennda
sem sæma karlmönnum: reiði, hatur, ótti við dauðann, ótti við auðmýkingu
— og auðvitað girnd.
Ástin skiptir miklu minna máli í strákabókum en samkeppni milli karl-
manna; líkaminn er meira virði en sálin. Metnaðarmunur milli kynja er sá
að strákar vilja sigra keppinautinn, stúlkur vilja öðlast og veita ást.
Stelpustrákabók
Hvernig skyldu bækur Þorgríms Þráinssonar falla inn í þetta munstur?
Fyrstu þrjár bækur hans, Meðfiðritig í tánum (1989), Tár, bros og takkaskór
(1990) og Mitt er þitt (1991), fjalla um sömu söguhetjur. í sögumiðju er
strákurinn Kiddi en við hlið hans eru vinirnir Tryggvi og Skapti. Allir eru
13-14 ára á sögutíma, vænir og vel upp aldir en fullkomlega eðlilegir
millistéttarstrákar. Andstæðingar þeirra eru annarrar gerðar, montnir,
stríðnir og svolalegir í fasi og orði.
Kiddi og Tryggvi eru áhugamenn um fótbolta, Skapti er gáfaðri en þeir,
yrkir ljóð og stundar nám í ballett. Þegar strákarnir komast að því velta þeir
fyrir sér hvort Skapti sé hommi:
„Hommi? Af hverju ætti hann að vera hommi?“ spurði Kiddi
forviða.
„Venjulegir strákar eru ekki í ballett.“
„En eru hommar í ballett? spurði Kiddi /.../
„Það veit ég ekkert um,“ svaraði Tryggvi /.../ {Tár, 14)
TMM 1995:3
59