Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Blaðsíða 92
komið þriðja formið. Homi K. Bhabha segir í bók sinni The Location of
Culture að í Söngvum Satans hafi Salman Rushdie minnt okkur á að innflytj-
andinn kunni nú að vera allra manna glöggskyggnastur því hann búi yfir
tvísýni („double vision“). Sjálfur segir Rushdie í bóksinni Imaginary Home-
lands að þetta stereó augnanna sé það sem innflytjandinn getur teflt gegn
heildarsýn („whole sight“) hinna innfæddu, því hann sé í senn innangarðs-
maður og utangarðsmaður. Það hefur líka verið orðað svo að innflytjandinn
sé á milli, hann sé hvorki Sjálfur né Annar, heldur eitthvaÖ annað að auki,4
Það er spennandi á tímum miðlunarkreppunnar, þegar enginn veit hvað er
marktækt af því nánast ógerlegt er að gera sér fullkomlega grein fyrir því að
hve miklu leyti texti er skilyrtur af menningu mælandans.
Það sem Janusar bókmenntanna glíma öðru fremur við í verkum sínum
er að kanna hvernig hið nýja komi inn í heiminn, eins og Rushdie hefur orðað
það. Þeir lifa á mörkum hins ósamrýmanlega, „mitt í því óskiljanlega“ segir
Marlow í Innstu myrkrum Conrads, og verða því þráfaldlega að skilgreina
stöðu sína í heiminum upp á nýtt. í rauninni lifa þeir í hvorugum menning-
arheiminum, heldur á illskilgreinanlegu svæði á mörkum þeirra, þar er
heimili þeirra og vinnustaður. Stöðugar „menningarþýðingar" verða nauð-
synlegar á stað sem þeim, þar verður fortíðin ekki aðeins þjóðfélagsmál eða
fagurfræðilegur forveri, eins og Homi K. Bhabha kallar það, heldur endur-
nýjast hún þar og verður að þessu millibili sem mótar nútíðina upp á nýtt
og raskar henni.5 Það verður til ný orðræða sem lýtur sínum eigin lögmálum.
Til að átta okkur betur á þessu skulum við taka einfalt dæmi: Þar sem heitt
loft mætir köldu verður til „nýtt loft“ með öðrum eiginleikum. Þar fer fram
ákveðin veðurfræðileg samþýðing eða málamiðlun og til verður nýtt ástand
sem hefur nokkuð af eiginleikum hins heita og hins kalda, en tilheyrir þó
hvorugum loftmassanum, heldur er öðruvísi. Því mætti lýsa svona: heitt-kalt,
rétt eins og mörgum þessara höfunda hefur verið lýst: kínversk-bandarískur,
indversk-breskur, pólsk-ástralskur, íslensk-kanadískur og þar fram eftir göt-
unum. Bandstrikið gefur til kynna að um illsamrýmanleg hugtök sé að ræða
(enda þekkja íslendingar hversu mikið getur gengið á þegar heitt mætir
köldu), en um leið verður til ný merkingarheild, tákngerð með bandstrikinu.
Um hitt má svo deila hvort þjóðernið eigi að koma á undan, en reglan virðist
samt vera sú að fæðingarland höfundar eða foreldra hans sé haft á undan og
segir það sína sögu.
90
TMM 1995:3