Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Blaðsíða 66
Fljótlega kemur í ljós að Agnes verður honum meira virði en fótboltinn.
Snerting hennar gerir hann að ofurmenni á vellinum (31) og þó að hann
vilji ekkert segja þá leyna svipbrigðin ekki hvernig honum líður:
,Af hverju brosirðu svona mikið?“ spurði Tryggvi þegar Kiddi var
að reyna að upplifa það í huganum þegar Agnes rétti honum
boltann.
„Hva, á ég að vera í fylu eftir sigurleiki?" spurði Kiddi og brosti
ennþá meira.
„Nei, en þetta er öðruvísi bros en fótboltasigurbros. Brosið á þér
nær alveg hringinn núna.“ (32)
Agnes er efnileg sundkona og allt með öllu er hún ennþá heppilegri félagi
fyrir verðandi stórstjörnu í fótbolta en Sóley. Um svipað leyti og draumur
Kidda um að komast í landsliðshóp í sínum árgangi verður að veruleika
tryggir hann sér Agnesi og framtíðin blasir við, björt og fögur. Kiddi verður
allur mjúkur og kvenlegur í samskiptum sínum við hana, gleymir sér við að
horfa á andlit hennar og heyrir ekki þegar hún er að reyna að kenna honum
stærðfræði:
„Mér fannst þú eitthvað annars hugar,“ sagði Agnes og leit aftur
niður á bókina.
„Nei, en ég gleymdi mér aðeins við að hlusta á lögin. Þau eru svo
svakalega róandi. Og kertin hafa líka róandi áhrif á mann.“ (92)
Þau innsigla tilfinningar sínar með kossi á síðu 111 og Kiddi finnur „hvernig
undarleg sigurtilfinning hríslaðist um líkamann, líkt og sú sem gagntók hann
þegar hann skoraði sigurmarkið í haustmótinu fyrir nokkrum mánuðum.“
Kiddi er þó nógu mikill strákur til að biðja Agnesi að láta ekki á neinu bera
í skólanum: „Ég nenni ekki að láta stríða mér endalaust þótt við séum
saman.“ Og hún lofar því.
En bókin er bara hálfnuð þegar hér er komið. Þá byrjar eiginlega ný saga
sem lesendur voru búnir undir með forspá fyrr í bókinni.
Sama kvöldið og ástardraumarnir rætast með fyrsta kossinum er ekið á
krakkana niðri á bryggju. Ökumaðurinn kemst undan, en Agnes deyr
nokkru síðar af meiðslum sem hún fékk við áreksturinn. Þorgrímur leggur
sig allan fram við að vinna úr þessum hræðilega atburði. Allir gráta Agnesi,
strákarnir, stelpurnar og kennarinn, og Kiddi er að sjálfsögðu niðurbrotinn.
Hann flýr úr skólanum illa klæddur og ráfar niður í Laugardal þar sem
Tryggvi finnur hann um kvöldið eftir langa leit:
64
TMM 1995:3