Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Blaðsíða 106
Pétur Már Ólafsson
Maður er svo öryggislaus1
— Um Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur
Sumar skáldsögur hljóta þau örlög að lokast inni í ákveðinni túlkun. Fljótlega
eftir að þær koma út skrifar einhver valinkunnur spekingur um skáldverkið,
skýrir merkingu þess á sannfærandi hátt og má segja að verkið lifi upp frá
því í skugga þeirrar túlkunar; túlkunin kemur í stað verksins, gerir það
yfirborðskennt, veldur því að texti sem maður hefur aldrei augum leitt
verður að „hinu fyrirfram lesna verki“. Þannig var afstaða mín, og kannski
fleiri af minni kynslóð, til skáldsögunnar Leigjandans2 eftir Svövu Jakobs-
dóttur. Leigjandinn hefur fyrir löngu hlotið sinn sess í íslenskri bókmennta-
sögu en hann var sumsé fyrir mér „hið fyrirfram lesna verk“.
Rétt eins og bækur geta lokast inni í ákveðinni túlkun má segja að eins
konar „skæruliðahópar“ haldi sumum höfundum nánast í gíslingu. Aðdá-
endur skáldsins bíða í ofvæni eftir nýju verki og taka því opnum örmum sem
innleggi í hugmyndafræðilega baráttu þeirra. Aðdáendaklúbburinn skapar
með þessu öfluga hefð í túlkun á verkum skáldsins. Svava er ágætt dæmi um
þetta. Hún hóf feril sinn sem rithöfundur á sjöunda áratugnum og var meðal
þeirra sem innleiddu módernisma í íslenskar prósabókmenntir. Á það hefur
verið bent að með sögum hennar komi ný viðfangsefni inn í íslenskar
bókmenntir og nýr tónn. I fyrstu smásagnasöfnum hennar voru sögur sem
fjölluðu um konur og börn undir femínísku sjónarhorni. Þær fjölluðu um
heimavinnandi húsmæður, einstæðar mæður, ungar stelpur og gamlar kon-
ur. Nýja kvennahreyfingin — Rauðsokkurnar — tók Svövu upp á sína arma
sem sinn höfund og las verk hennar sem innlegg í pólitískan áróður sinn:
Það má segja að íslenskir vinstrimenn hafi tekið Svövu opnum örmum og
hernámsandstæðingar fundu eitt og annað í verkum hennar sem þeir gátu
nýtt sér í baráttunni. Þessir hópar gáfu tóninn um það hvernig ætti að túlka
sögur hennar, sögðu í hverju gildi hennar sem rithöfundar fælist. Annað féll
í skuggann sem er miður því að Svava átti mikinn þátt í þeirri endurnýjun
sem varð í íslenskri sagnagerð á sjöunda áratugnum, fyrir utan að verk
hennar eru annað og meira en einfaldar áróðursbókmenntir. Það sem
einkennir verk hennar öðru fremur er furðuraunsæi, írónía, gróteska og
mikill symbólismi.
X
104
TMM 1995:3