Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Blaðsíða 51
orðum úr barnamáli, sem hann hefur tekið eftir litlu manneskjunni og skráð
hjá sér í litla kompu. Dæmi um þetta verða nefnd hér á eftir.
Sálminum um blómið má í grófum dráttum skipta í þrennt: samræður
Þórbergs (Sobbeggi afa) og Helgu Jónu (lillu Heggu), frásagnir af lillu Heggu
og sögur Sobbeggi afa.
Samræður Sobbeggi afa og lillu Heggu
Stór hluti Sálmsins eru samræður Sobbeggi afa og lillu Heggu, orðræða
lærimeistara og „lærisveinku“ í klassískum stíl og dæmi eru um allt frá því
snemma á miðöldum, t.d. í Elucidarius. Tilgangur þessara samræðna er að
uppfræða Jitla, heimska höfuðið“ og boða lillu Heggu lífssýn og lífsvisku
gamla mannsins. I fyrstu er stúlkan upplýst um einföldustu hluti, heiti
dýranna og náttúru þeirra, lönd og landhætti, álfa og tröll og ytra og innra
hylkið. Þá varar Sobbeggi afi hana við ýmsum hættum, syndum og löstum.
Hann talar gegn ullabjökkum og persíkóla og fordæmir lygi og leti. Smám
saman breytast áherslur í boðuninni og heimsmynd litlu manneskjunnar
verður eilítið flóknari. Framan af eru mennirnir ýmist vondir eða góðir,
síðan verða sömu einstaklingar bæði vondir og góðir, og loks mikið vondir
og lítið góðir eða mikið góðir og lítið vondir. Þannig reynir Sobbeggi afi að
vera þátttakandi í lífsstríði litlu manneskjunnar og aðstoða hana í glímunni
við grimma og óskiljanlega veröld.
Samræðurnar snúast ekki bara um uppfræðslu lillu Heggu heldur er þar
einnig lýst viðbrögðum hennar við umhverfi sínu, hvernig hún miðlar
reynslu sinni til Sobbeggi afa og hvernig hann bregst við hegðun hennar.
Kostulegar eru lýsingarnar á því þegar Sobbeggi afi hefur sig að fífli í leitinni
að Hauk sem skítti á fiðluna eða þegar hann viðhefur lævísleg ummæli um
leti lillu Heggu. En lítum nú á sýnishorn úr textanum:
„Mikið hlakka ég til, þegar þú ert búin að læra að garda. Hvað
ætlarðu þá að garda?“
Það var litla manneskjan ekki búin að ráða við sig ennþá.
„Ætlarðu að garda ullabjökk úr búðinni hans Silla og hans
Valda?“
„Það er svartigardur,“ svarar litla manneskjan.
„Já, það er svartigardur og meira að segja vondur svartigardur.
Ég held þú ættir ekki að garda það. En þú gætir gardað hrýtingarnar
úr henni Sjóku og henni Mömmugöggu.“
„Það er hvítigardur,“ segir litla manneskjan.
TMM 1995:3
49