Gripla - 20.12.2006, Page 12
GRIPLA10
útgáfa eftir handritum (A I–II) og einnig samræmd útgáfa með völdum texta
Finns og danskri þýðingu (B I–II). Síðan gerði hann nýja útgáfu af Lexicon
poeticum Sveinbjarnar Egilssonar, og var sú útgáfa miðuð við B-textann í
Skjaldedigtning og við skilning Finns sjálfs á kvæðunum.
Eldri samtímamaður Finns Jónssonar og annar helsti íslenski fornritafræð-
ingur um 1900 og í upphafi 20. aldar var Björn M. Ólsen, fyrsti prófessor í ís-
lenskum fræðum við Háskóla Íslands. Ef til vill hefur hann ekki viljað vera
minni maður en Finnur þegar hann leyfði sér einnig að efast um höfundarrétt
Egils til sumra vísnanna í ritgerð um Egilssögu, Landnáma og Egils saga, í
Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie 1904.
Yngri samtíðarmaður Finns sem einnig fékkst mikið við norrænan forn-
kveðskap var Andreas Heusler. Eins og fleiri þýskumælandi menn leit hann á
þessar bókmenntir sem samgermanska eign, enda nefnir hann höfuðverk sín
Deutsche Versgeschichte (1925–1929) og Die altgermanische Dichtung (1929).
En oddviti næstu kynslóðar, Sigurður Nordal, lagði hins vegar meginþunga á
íslenskan uppruna flestra eddukvæða og dróttkvæða. Segja má að hann hafi
verið nokkuð sammála Finni á síðara æviskeiði hans um eignarhald Egils-
kvæða. Samkvæmt skoðun hans voru skáldinu með réttu eignuð kvæðin þrjú
og þorri lausavísnanna. Nordal gekk jafnvel enn lengra en Finnur í rausn sinni
við skáldið. Finnur efaðist um að ýmsar vísur gætu verið réttlega eignaðar
Agli vegna ytri aðstæðna svo sem þeim er lýst í sögunni; en Nordal varpaði
fram þeirri hugmynd að Egill hefði ort þessar vísur í eigin orðastað þegar hann
var að segja raupsögur af sjálfum sér á efri árum. – En Nordal er kunnari fyrir
umfjöllun sína um eddukvæði og fornar sögur heldur en dróttkvæði. Hann
hafði litlar mætur á dróttkvæðum sem bókmenntum, að undanteknum kvæð-
um Egils. Í riti sínu Íslenzk menning (1942) fjallar hann að sjálfsögðu um
þessa kveðskapargrein, en hefur í upphafi kaflans undirfyrirsögnina: „Lifandi
saga dauðra bókmennta“ (bls. 233). Saga íslensku hirðskáldanna er lifandi, en
kvæði þeirra eru gleymd.
4
Næst skulu nefndir þrír enn yngri fræðimenn sem allir fjölluðu mikið um
dróttkvæði: Jón Helgason, Hans Kuhn og Einar Ólafur Sveinsson. Þessir þre-
menningar voru jafnaldrar, allir fæddir árið 1899, og lifðu fram í háa elli. Með
þeim öllum var kunningsskapur og vinátta. Jón og Einar Ólafur voru skóla-
bræður frá Menntaskólanum í Reykjavík og Háskólanum í Kaupmannahöfn,