Gripla - 20.12.2006, Síða 106
GRIPLA104
7.2 Hrynræn áhrif hendinga og stuðla
Þegar allt er talið koma tilvitnanir til skjálfhendu býsna oft fyrir í lausamáli
Háttatals, þótt ekki sé með fullu ljóst hvernig túlka ber vitnisburðinn um eðli
háttarins eða þá hinnar nýju skjálfhendu. Ekki er ólíklegt að hin nýja skjálf-
henda sé hátturinn tvískelft, sem er formið á 28. vísu. Faulkes (Edda, Hátta-
tal:60) telur hugsanlegt að munurinn sé fólginn í því að í hinni nýju skjálf-
hendu séu skothendingar í þeim línum sem hafa umrætt einkenni, þ.e. eru
skjálfhendar, en þetta er svo í forlínunum (ójöfnu línunum) í 28. vísu. Sam-
kvæmt þessu er hin forna skjálfhenda einungis „skjálfhent“ í síðlínum, þar
sem aðalhendingar eru, en í tvískelfdu er skjálfhenda í bæði forlínu og síðlínu.
Lausamálsskýringarnar gera berlega ráð fyrir að sérkenni skjálfhendu
byggist á staðsetningu stuðla og hendinga, en hér hefur verið ýjað að því að
einkenni skjálfhendunnar hafi verið hrynræn, að minnsta kosti öðrum þræði,
þar sem einhvers konar upphefð hafi tengst rímmeðulum. Athygli vekja um-
mæli í lausamáli á eftir 35. vísu, þar sem segir að Veili (þ.e. Þorvaldur veili)
hafi fyrst fundið þennan hátt: „Þá lá hann í útskeri nokkvoru, kominn af skips-
broti, ok hƒfðu þeir illt til klæða ok veðr kalt. Þá orti hann kvæði er kallat er
kviðan skjálfhenda eða drápan steflausa, ok kveðit eptir Sigurðar sƒgu.“ Þessi
sögn bendir til þess að í umræddu kvæði (sem því miður hefur ekki varðveist)
hafi menn þóst skynja einhvern skjálfta í hrynjandinni. Höfundur Háttatals
tengir þennan „skjálfta“ við staðsetningu stuðla og höfuðstafa, en líklegt er að
það hafi einnig haft áhrif á skynjun á hrynjandi.11
Það að stuðlar í forlínum standa nærri hver öðrum, á tveimur fyrstu risun-
um, og að hendingar standa „sem first“ hefur það í för með sér að rímvenslin
og stuðlavenslin byggja ekki á sömu atkvæðum; við höfum séð að stefnt virð-
ist að því að frumhendingin í jöfnu línunni lendi ekki á atkvæðinu sem ber
höfuðstafinn. Skjálfhendueinkenni koma þannig fram í 28. vísu að ekki er
stuðlað á síðasta risi forlínunnar og sama takmörkun gildir í 3. og 5. línu 35.
vísu (hinni fornu skjálfhendu). Dæmi um þennan aðskilnað stuðla og hendinga
er einnig að finna í fimmta og sjötta vísuorði 39. vísu, sem lausamálstextinn
segir: „dregsk þat vísuorð með hljóðfylling mjƒk eptir skjálfhendu hinni
ný[ju]“:
hjaldrs þá er hilmir foldar
hugdýrum gaf stýri (39. vísa, l. 5–6)
11 Slíkum kuldaskjálfta í máli er vel lýst, þótt með öðrum hætti sé, í vísu Rögnvalds jarls sem
hann yrkir í orðastað Ásu griðkonu í Orkneyinga sögu (ÍF XXXIV:197–198).