Gripla - 20.12.2006, Page 206
GRIPLA204
Stefán um leifar tveggja saltarablaða í Árnasafnshandriti og tveggja hómilíu-
blaða í Landsbókasafni, öll skrifuð á latínu, sem hann telur vera með hendi
Kringluskrifarans.
Stefán fékkst víða við það í rannsóknum sínum að greina hvort handrit eða
fornbréf væru af norskum eða íslenskum uppruna en það getur oft verið
álitamál hvernig þar verði greint á milli vegna þess hve lík tungumálin voru á
eldri málstigum og bókamarkaður landanna sameiginlegur um alllangt skeið.
Hafa fræðimenn oft komist að ólíkum niðurstöðum varðandi þetta þegar þeir
hafa fjallað um slíkar heimildir. Þessar rannsóknir og greining milli norskra og
íslenskra skriftarvenja varð eitt af sérsviðum Stefáns. Í grein sem birtist árið
1978, Om norvagismer i islandske håndskrifter, byggir hann á þeirri víðtæku
þekkingu sem hann hafði aflað sér á þessu sviði og setur þar fram traustar
ábendingar um það hvernig greina megi hvort norsk skriftareinkenni sem
koma fyrir í íslenskum handritum á 13. og 14. öld séu a) áhrif frá forriti skrif-
ara, b) almenn norsk áhrif á íslenskar skriftarvenjur eða c) tilraunir íslenskra
skrifara til þess að laga sig að norskum skriftarvenjum. Árið eftir birtist grein
eftir hann um útflutning bóka frá Íslandi til Noregs, Islandsk bogeksport til
Norge i middelalderen. Þar dregur hann saman yfirlit um þau norrænu handrit
sem varðveitt eru í Noregi frá miðöldum, að lögbókum frátöldum, og greinir
efni þeirra, aldur og þjóðerni og leiðir að því sterkar líkur að útflutningur bóka
frá Íslandi til Noregs hafi verið umtalsverður frá miðri þrettándu öld og fram
eftir fyrri hluta fjórtándu aldar sem sést meðal annars af því að ríflega helm-
ingur þessar handrita er íslenskur að uppruna. — Stefán leiddi líkur að því í
fleiri greinum að handrit sem talin höfðu verið norsk væru íslensk og má hér
nefna Om himmel og helvede på gammelnorsk. AM 238 XXVIII fol. frá 1984;
Lovskriver i to lande. Codex Hardenbergensis og Codex Belgsdalensis frá
1987; Hverrar þjóðar er Karlamagnús saga? frá 1989; og loks Elsta brot
Karlamagnús sögu og Rekaþáttur Þingeyrarbókar frá 1992.
Greinin Stafsetning séra Odds á Reynivöllum frá 1981 er nokkuð rækileg
umfjöllun um helstu einkenni stafsetningar í eiginhandarritum séra Odds
Oddssonar á Reynivöllum í Kjós (um 1565–1649) sem er ætlað að bregða ljósi
yfir íslenska málsögu — suðvestanlands — áratugina í kringum aldamótin
1600. Oddur mun hafa haft hug á að breyta stafsetningu til samræmis við fram-
burð þannig að ritvenjur hans gefa nokkra hugmynd um sunnlenskan framburð
á hans dögum.
Árið 1982 gaf Stofnun Árna Magnússonar út í samvinnu við bókaforlagið
Lögberg ljósprent af skinnbók með sögu heilags Nikulás sem varðveitt er í
Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi. Hlaut skinnbókin þá heitið Helgastaðabók