Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 19
SKÍRNIR UM BARNAGULL JÓNS ÁRNASONAR
13
samkvæmt efnislegum og formlegum einkennum: Þ. e. til dæmis
einn flokk með dýradæmisögum, annan með austurlenzkum
sögnum, hinn þriðja með sögum af stórmennum heims o. s. frv.
Þar fyrir utan verður ekki komið auga á neina reglu til flokkunar
efnisins í Lbs 584 4to, m. ö. o. gera verður ráð fyrir, að efnisniður-
röðun fylgi að öðru leyti ekki neinu ákveðnu mynstri, heldur muni
fremur vera tilviljun háð. Þar sem að auki verður ekki loku fyrir
það skotið, að slíkum efnisyfirlitslausum blaðabunka hafi enn
frekar verið ruglað á þeim næstum hundrað árum, sem liðin eru frá
dauða Jóns, þá sýnist harla óskynsamlegt að ætla sér að lýsa efni
bunkans í þeirri röð, sem heftin og miðarnir eru í nú.
Eg mun því þess í stað taka mið af ramma þeim fyrir barnabók,
sem settur er upp í blaðaauglýsingum Hins íslenzka bókmenntafé-
lags, og flokka efni Jóns í Lbs 584 4to á þann hátt, að unnt verði að
bera það saman við þann ramma.
„Stafróf og smásögur, einfaldar og skemmtilegar“
I fljótu bragði sýnist langstærsti hluti efnisins í Lbs 584 4to falla
undir þennan flokk.
Stafróf er ekki þar á meðal, og ekkert bendir til þess, að Jón
Arnason hafi ætlað að hafa eitt slíkt með. I öðrum löndum var þá
til mýgrútur af stafrófskverum, sem iðulega voru myndskreytt, og
var þeim ætlað að auðvelda börnum lestrarnámið.11 Jón nefnir
sjálfur nokkur slík verk, ABC og Læsebog, Billed ABC, Hallagers
tydske Lœsebog og ABC, sem heimildir að þýddum sögum, og
mætti láta koma sér til hugar, að eitthvað í þessa veru hafi vakað
fyrir honum sjálfum. En allt eins er hugsanlegt, að Jón hafi vikið að
marki frá hinum upphaflegu hugmyndum Hins íslenzka bók-
menntafélags um bókina og hafi eingöngu haft í hyggju bók fyrir
eitthvað eldri börn; til þess bendir sú staðreynd, að í Lbs 584 4to
eru engir textar, sem virðast henta vel byrjendum í lestri.
Austurlenzkar sögur
Smásögunum er yfirleitt, eins og fyrr var raunar sagt, skipað í
flokka með innbyrðis efnisskyldum textum. Fyrsti flokkurinn af
þessu tagi er dálítið safn fremst í handritinu af austurlenzkum
sögum, sem ber yfirskriftina „Hugvekjur (eptir Sadí persneska)“.