Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 21
SKÍRNIR UM BARNAGULL JÓNS ÁRNASONAR
15
Ein dýradæmisaga með titlinum „Úlfur og tóa“, sem er stök, er
einnig tekin úr Molbechs Lœsebog.19
Fjórði flokkur hefur að geyma níu dýradæmisögur, sem ein-
kennast afþví, að lausa máls textanum fylgir hverju sinni vísa, sem
endurtekur kjarnann úr inntaki undanfarandi lauss máls. Dæmi-
sögurnar í bundnu máli eru skrifaðar upp næstum án nokkurra
leiðréttinga, en lausa máls gerðirnar eru á hinn bóginn mjög leið-
réttar. Þetta bendir til þess, að Jón hafi tekið texta vísnanna
óbreyttan upp úr heimild sinni, en hafi hins vegar af ásettu ráði
unnið úr lausa máls köflunum, ef hann hefur þá ekki þýtt þá úr er-
lendu máli eða jafnvel samið þá sjálfur. - Vísurnar eru ortar af Páli
Vídalín (1667-1727) og eru að líkindum teknar úr Lestrarkveri
handa heldri manna börnum eftir Rasmus Rask.20
í fimmta flokki eru aðeins sjö rímaðar dýradæmisögur. Einnig
þessar vísur virðist Jón hafa tekið óbreyttar upp úr íslenzkri heim-
ild.
Loks hefur handritið að geyma sjötta flokk dýradæmisagna: þrjá
texta, sem Sveinbjörn Egilsson hefur skrifað. Þeir bera yfirskriftina
„Ornin og tóan“, „Næturgalinn og haukurinn“ og „Örnin og
krákan“. Sveinbjörn hefur greinilega þýtt þá sjálfur (úr latínu eða
grísku), enda má hvað eftir annað finna leiðréttingar í textanum.
Þýðingarnar eru skrifaðar á baksíðu bréfs, sem dagsett er hinn 27.
janúar 1851 (frá Þórði Sveinbjarnarsyni í Nesi til Sveinbjarnar). Þar
sem Sveinbjörn lézt í ágúst 1852, hljóta þýðingarnar að hafa verið
gerðar 1851 eða 1852.
Tengdur dýradæmisögunum er ennfremur texti með titlinum
„Frásaga frá einum Philomela", sem Jón Arnason kallar sjálfur
„Heilræði“ í handritinu. Þetta er sagan af næturgalanum, sem telur
svo um fyrir veiðimanninum, er hefur veitt hann, að hann sleppir
honum. — Þessi saga er tekin úr Barlaams sögu og Jósafats.21 Ætla
má, að Jón hafi skrifað þennan texta upp eftir handritinu Lbs 457
4to, þar sem hann hefur yfirskriftina „Eijn Skrijteleg fraSaga af
fuglenum Philomela“; í útgáfunni frá 1851 vantar yfirskriftina.
Handritið Lbs 457 4to geymir m. a. tvo texta enn („Frödleg Frásaga
Af Adám Og Seth Hannz Syne“ og „Ein Viturleg Epter Lijking
Vmm Mannenn"), sem Jón hefur tekið upp í efnissafn sitt.22