Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 33
SKÍRNIR UM BARNAGULL JÓNS ÁRNASONAR
27
III
Séu dregnar saman hinar einstöku athuganir, sem hér hafa verið
gerðar, og sé efnið í Lbs 584 4to borið saman við þann ramma
barnabókar, sem settur er upp í auglýsingum Hins íslenzka bók-
menntafélags, þá verða niðurstöðurnar þessar:
I auglýsingunum er skorað á menn „að semja ritgjörðir". Jón
Árnason hefur á hinn bóginn einvörðungu safnað saman efni, ekki
frumsamið sjálfur. Stærstan hluta þess hefur hann þýtt úr öðrum
málum, einkum úr dönsku. Við það vekur sérstaka furðu, að jafn-
vel texta eins og ævisögu Eysteins Ásgrímssonar og söguna af
Alexander og Loðvík hefur hann þýtt úr erlendum málum.
Að því er bezt verður séð, hefur Jón aðeins í einu tilviki unnið að
ráði úr texta efnislega, m. ö. o. safnað sjálfur saman í eigin íslenzka
gerð úr allmörgum útlendum forritum, það er hinn ólokni texti um
mannslíkamann. En höfundur í nútímaskilningi virðist hann í raun
og veru einungis hafa verið í kafla þeim, sem bætt er við ágrip
Ströms af kirkjusögu og fjallar um þessi efni á íslandi fram um
1850.
Upprunalega íslenzkir textar frá síðari tímum eru fágætir í Lbs
584 4to; þar er fyrst og fremst um að ræða kvæði Stefáns Olafsson-
ar og dýradæmisögurnar í bundnu máli.
Hinir fáu gömlu textar (úr Konungsskuggsjá, úr Barlaams sögu
og Jósafats, sagan af krossi Krists) teljast í raun einnig til þýddra
bókmennta.
Jón hefur að vísu, eins og áður hefur verið sagt, aðeins í undan-
tekningartilvikum rjálað við textana efnislega; stílinn hefur hann
hins vegar endurskoðað og breytt honum allajafna mjög. Bezt
kemur þetta í ljós, þar sem eru „einfaldar og skemmtilegar smásög-
ur“. I næstum öllum handritum þeirra má sjá fjölmargar leiðrétt-
ingar, sem hann hefur gert sjálfur á sínum eigin þýðingum, til þess
að þær fengju íslenzkulegri svip.
Á þessum skemmtandi og uppbyggilegu sögum fyrir börn mun
Jón einnig fremur hafa haft áhuga sjálfur en á náttúruvísindalegu
eða sögulegu textunum. Það verður ekki einungis ráðið af því, að
flokkurinn með þessum smásögum er sá umfangsmesti innan
safnsins í Lbs 584 4to og Jón hefur breytt stílnum mjög gagngert
einmitt á þessum textum; í sömu átt benda einnig listar þeir yfir