Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 130
116
HANNES JÓNSSON
SKÍRNIR
Óraunhœf óvinarímynd
Vissulega var útþensluógnun Sovétríkjanna og kommúnismans í
Evrópu um og eftir síðari heimsstyrjöldina gild ástæða fyrir stofn-
un NATO 1949. Síðan hefur ríkt friður í Evrópu, landamæri hafa
verið virt hér í álfu og skipulagi kommúnisma ekki þröngvað upp
á neitt Evrópuríki. Þetta hefur verið vopnaður friður byggður á
ógnarjafnvægi kjarnorkuveldanna og varnarbandalaga þeirra.
Þegar grannt er skoðað sést, að aðild Islands að NATO byggist
öðrum þræði á varnarhagsmunum nágranna okkar á Atlantshafs-
svæðinu, sem hafa talið ísland ómissandi hlekk í varnarkeðju vest-
rænna ríkja vegna hernaðarlegs mikiivægis landsins á Norður-At-
lantshafssvæðinu. I raun heíur Islandi, sjálfstæði þess, fullveldi og
öryggi, ekki verið ógnað beint á lýðveldistímabilinu, þrátt fyrir
þorskastríðin, sem eru dæmi um alvarlegustu hagsmunaárekstra
okkar við önnur ríki síðan 1944. Ognunin hefur aðeins verið óbein
og almenn vegna útþenslustefnu Sovétríkja Stalíns eftir stríðslok
1945.
I reynd hefur óvinarímynd sú af Sovétríkjunum, sem NATO
hefur mótað og viðhaldið um langa hríð, ekki verið sannfærandi á
íslandi.
Sovétríkin voru meðal fyrstu ríkja bandamanna, sem viður-
kenndu stofnun lýðveldis á íslandi strax 1944.
Þegar við áttum í hagsmunadeilu við Breta út af landhelgismál-
inu 1952, 1958, 1972 og 1975, þá ýmist viðurkenndu Sovétríkin
nýju fiskveiðimörkin formlega eða í verki.
Þegar Bretar beittu okkur löndunarbanni á árunum 1952—1956
til þess að reyna að þvinga okkur frá útfærslunni úr 3 í 4 mílur, þá
viðurkenndu Sovétmenn 4 mílna mörkin og komu auk þess til
hjálpar 1953 og gerðu við okkur viðskipta- og greiðslusamning um
kaup á fiski og sölu á olíuvörum, sem jafnan síðan hefur verið
endurnýjaður og framkvæmdur báðum ríkjunum til hagsbóta.
Síðan 1961 hefur verið í gildi samningur Islands og Sovétríkj-
anna um menningar-, visinda- og tæknisamvinnu, sem fram-
kvæmdur hefur verið óaðfinnanlega.
Síðan 1977 heiur verið í gildi samningur ríkjanna um gagn-
kvæma viðurkenningu 200 mílna auðlindalögsögu og vísinda- og
tæknisamvinnu á sviði sjávarútvegs.