Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 82
68
AÐALSTEINN INGÓLFSSON
SKÍRNIR
Ekki tók betra við þegar forlag ed reyndi að selja verkið:
Við fórum með kynningareintök í helstu bókabúðir í bænum og létum
fylgja lista, sem áhugasamir kaupendur áttu að skrifa sig á. Við fengum einn
kaupanda, Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt, og urðum sammála um að
verðugt væri að launa áhuga hans með því að gefa honum bókina. Forlagið
hafði því aldrei neinar tekjur af þessum dýra grip. Fáein eintök urðu eftir
hér á landi... einhver eintök sendi Diter vinum sínum erlendis að gjöf, en
flest munu þó hafa farið í glatkistuna.7
kinderbuch er 28 síður í stóru broti ( 32 x 32 crn. ), prentuð á
þykkan karton og spíralheft. Frumeiningar hennar eru ær og kýr
konkret myndlistarinnar, ferningurinn og hringurinn, sem eru
prentaðar eða útskornar í ýmsum stærðum frá upphafi tii enda.
Af því sem Einar Bragi segir hér að framan um mismunandi röð-
un á síðum hennar má draga þá ályktun að í kinderbuch hafi Rot
ekki ætlað sér að skapa óhagganlegt sjónrænt samhengi, upphaf,
stígandi, hvörf og endi, heldur einmitt hið „opna“ myndkerfi, sem
rætt er um fyrr í þessari grein. Enn „opnara“ er þetta kerfi en ella
fyrir það að hver síða ( karton ) er ekki lokaður, skýrt afmarkaður
flötur, eða myndrými, heldur götuð.
I gegnum götin má greina litfleti á næstu tveimur eða þremur
kartonsíðum, allt eftir því hvernig þeim er raðað saman. En þrátt
fyrir óreglulega uppröðun á formum og götum, og tilviljunar-
kennda samsetningu síðnanna, verður kinderbuch samt að sterkri
sjónrænni heild, alvöru bókverki, þökk sé því fábrotna en jafn-
framt heillega myndmáli sem Rot beitir af snilld, þ.e. tveimur
frumformum og fjórum frumlitum.
Eftir að hafa flett tveimur fyrstu síðum kinderbuch, hvort sem er
framan frá eða aftan, veit handhafi hennar nokkurn veginn hvernig
hún „ virkar“. Þó hlýtur hann að vera óviðbúinn hinum mörgu til-
brigðum við upphafsstefið, sem eiga sér stað í henni, hlaupum á
formum úr einu horni í annað, togstreitu litflatanna eða skyndileg-
um samruna þeirra, breytilegum skurði „gægjugatanna“. Að líkja
kinderbuch við tónverk er ekki alveg út í hött.