Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 209
SKÍRNIR
RITDÓMAR
195
- Ekki sá Daníel sem henni hafði einu sinni þótt vænt um: leiddi
hana við hlið sér og talaði um orm sem hringaði sig umhverfis hólma
úti í Tjörninni. (bls. 309)
Nú tekur afstaða lesandans við.
Baráttan milli tortímingar og þess sem er lífvænlegt hefur verið yrkisefni
Alfrúnar frá því fyrsta. Og svo er einnig hér. Þó að ég hafi einskorðað mig
við samband Boggu og Daníels, falla hin margvíslegu örlög annarra per-
sóna sögunnar undir þetta sama þema. I Hringsól hefur Álfrún kortlagt
illskuna, lögmál hennar og tilvist. Þetta gerir hún af alvöruþunga sem nú-
tíminn hlýtur að leggja eyru við og með slíku listahandbragði að til tíðinda
hlýtur að teljast í íslenskri skáldsagnagerð.
Svava Jakobsdóttir
Guðmundur Daníelsson
VATNIÐ, skáldsaga
Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1987
í þessari nýjustu skáldsögu Guðmundar Daníelssonar, sem út kom fyrir
síðustu jól, er Bára Álfsdóttir án nokkurs vafa sú persóna sem allt sögusvið-
ið snýst utan um. Og er þó persóna hennar kannski ekki meginatriði
verksins. Sagan gerist á bakka Vatnsins, sem svo er nefnt, og þar fer ekki á
milli mála að aðstæður eiga sér hliðstæðu og fyrirmynd á vesturbakka
Þingvallavatns. En varðandi það á trúlega enn við það sama að máski skiptir
staðsetning verksins eða sögusviðið í rauninni ekki nema litlu máli, ef
nokkru.
Það hefur verið einkenni á skáldskap Guðmundar allt frá upphafi að
hann hefur hvað eftir annað sýnt tilhneigingu sína til að skapa sterka ein-
staklinga í sögum sínum, fólk sem stendur upp úr hópnum umhverfis á
einn eða annan hátt. Hér leynir sér ekki að með Báru er komin ný persóna
í þennan hóp. Þessi Þingvallastúlka - eða Þjóðvallastúlka eins og ætti að
nefna hana eftir staðaheitum bókarinnar- er enn einn sterki einstaklingur-
inn til viðbótar við þá sem eru í fyrri verkum Guðmundar.
Bára er annars bóndadóttir, einbirni og alin upp á bæ foreldra sinna á
vesturbakka Vatnsins. Sagan hefst um 1930, en árið 1914 hefur útlendur
maður farist sviplega á Vatninu þar skammt úti fyrir. Hann var þar við urr-
iðaveiði, og Katrín móðir Báru sat í bátnum með honum. Grunur leikur á
að hún hafi verið meðvirk í þessu slysi, en eigi að síður hafa nágrannar
þeirra í flimtingum að þessi útlendingur hafi verið hinn raunverulegi faðir
Báru, en ekki Álfur sem móðir hennar giftist aðeins örskömmu síðar. Og
þessi almannarómur er svo margsinnis staðfestur í bókinni sem sannleikur.