Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 49
SKÍRNIR
BÆKUR ÆXLAST AF BÓKUM
43
nokkuð sjá frá sér, sáu þeir að þar voru fyrir brattir hamrar er þeir
voru að komnir.“
Þegar hingað er komið frásögn, tekur ábóti sér hvíld frá því að
lýsa norrænni stórhríð; í staðinn hermir hann frá viðræðum manna
uppi á fjalli, meðan fjúk og frost kveða helgaldra yfir þeim:
Þá kom illur kurr á lið konungs. Sumir mæltu að þeir myndu ganga ofan
fyrir hamra og þola eigi lengur svo mikla kvöl, og þá myndi skjótast um
ráða. Sumir mæltu að „meiri framkvæmd sýnist oss til fornra minna að taka
og gera eftir dæmum hvatra manna, þeirra er sjálfir bárust vopn á og
drápust, heldur en þeir vildi nauðir þola lengur.“ (Sverris saga, bls. 22)7
Eins og vænta mátti, þá fer Sverri presti ekki að lítast á blikuna.
Þótt veðurofsi sé mikill og hvíni í hverri gnípu, þá biður hann sér
hljóðs og hefur ræðu sína á þessa lund:
Eg hefi að hugað, sagði hann, yðarri ráðagerð, og sýnist mér óvænleg.
Og í þessi ætlan dugir ekki vætta, ef þér gangið fyrir hamra ofan og farið
yður sjálfir. Það er ærra manna tiltekja, þeirra er eigi kunna fótum sínum
forráð.
En með því að þér viljið sjálfir vopnum berjast: það er heiðinna manna
siður, þeirra er ekki vita til guðs. En vér erum kristnir menn og kristinna
manna börn, og vitum vér að sá maður er sér ræður sjálfur bana á enga von
til guðs. (Sverris saga, s. st.)
Hér er engin ástæða til að rekja ræðu Sverris lengra: að lyktum
kemst hann að þeirri niðurstöðu að þeir skuli ákalla guð, Maríu
mey og Olaf helga. Svo mikill kraftur fylgir orðum prests, þótt enn
sé ungur að árum, að rétt um það leyti sem erindi hans þrýtur hefur
óveðri slotað; heiðviðri og sólskin hafa rutt í burt sótsvartri hríð,
og þó höfðu þeir sem næstir stóðu Sverri naumast heyrt orðaskil
þegar hann tók til máls.
Glögg athugun á nítjánda kafla Sverris sögu sýnir að hægt er að
leysa hann upp í þrjá frumþætti. I fyrsta lagi er um að ræða náttúru-
lýsingar og veðurs; hér er sérlega mikil áhersla lögð á að skýra fyrir
lesanda það sem vér köllum vettvang eða sögusvið. I öðru lagi eru
athafnir Sverris og förunauta hans, viðureign þeirra við óblíða
náttúru uns þraut þeirra lýkur og þeir sleppa niður til byggða. Og