Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 66
60
AÐALSTEINN INGÓLFSSON
SKÍRNIR
mann. Ég vil vinna verk á laufléttan pappír, því það er hægt að fleygja
honum. Auðvitað er hægt að mála gríðarstórt málverk . . . á níðþungan
striga . . . en þú getur komið sömu hugmynd fyrir á pappírsbleðli í einni
bók. Og ef 300 síður eru í bókinni, má hafa 300 myndir í henni.
Hamilton: Og hún gæti samt talist meiri háttar verk ?
Rot: Vissulega, - það er ekki fráleitt, eða hvað? Ertu ekki sammála?
Hamilton: Algjörlega.
Rot: Því ekki að halda sig við slíka hluti Bækur eru ódýrar, fólk getur
fleygt þeim, ef það vill. Það er ekki verið að íþyngja því alvarlega.5
Gerð bókverka var Rot því eins konar andóf, eins og einnig má
sjá af ummælum hans um hinn þýska bókmenntaarf hér að framan.
Bókin var auk þess ódýr neysluvara og handhægur fjöl-miðill
myndlistarhugmynda, jafngild málverkinu. Eitt var það enn í eðli
bókarinnar, sem kom heim og saman við vangaveltur Rots um
myndlist á sjötta áratugnum, það er, að hún hefur innbyggða fjöl-
breytni, ef svo má að orði komast.
Þótt Rot segi það hvergi berum orðum, benda ýmis ummæli
hans óbeint til þess að andúð hans á hinu einstaka myndverki hafi
stafað af því, að það var ætlað sem endanleg lausn á tilteknu vanda-
máli, forms eða hugsunar. Eins og áður hefur komið fram, hefur
Rot enga trú á endanlegri lausn eða lokatakmarki í myndlist, frekar
en í lífinu.
Að búa til rnyndir, bækur, texta og tónlist, svo nefndar séu þær
greinar sem Rot hefur aðallega fengist við, er eins konar leikur með
ákveðinn fjölda möguleika, í opnu kerfi sem hver listamaður mótar
og afmarkar. Og „opið“ er kerfið að því leyti að listamaðurinn er
ætíð reiðubúinn að endurskoða það, taka ný tilbrigði til athugunar,
gera á því breytingar.
Bókverkið hentar einmitt slíku viðhorfi til listsköpunar. Það er
í sjálfu sér „opið“ kerfi með breytilegum fjölda eininga, blaðsíðun-
um, þar sem sérhver síða hefur sitt að segja, en er þó háð samhengi
sínu, síðunum á undan og eftir, þeirri heild sem höfundur ákvarðar
hverju sinni.
Bókverkið eykur sömuleiðis á svigrúm lesandans/skoðandans til
túlkunar. Hann getur flett síðum hratt eða hægt, afturábak eða
áfram, og sé hann ekki sáttur við verkið að lestri eða skoðun lok-
inni, er honum í lófa lagið að fleygja því. Og til að gefa handhafa