Skírnir - 01.04.1988, Blaðsíða 48
42
HERMANN PÁLSSON
SKIRNIR
an til þess að sá góði biskup komst ekki í helgra manna hóp um
miðja 14. öld var einfaldlega sú að lærdómsmenn í páfagarði gátu
ekki sætt sig við rithnupl Arngríms, enda myndu nú flestir kjósa
heldur að hann hefði varðveitt erindi Kolbeins kaldaljóss.
En bróðir Arngrímur hafði vitaskuld aðra ástæðu til að hyggja
að erkibiskupi Kantarabyrgis í minningarræðu um Guðmund
góða. Allt frá því að Kolbeinn Tumason, frændi Kaldaljóss, komst
svo að orði árið 1207 að Guðmundur væri glíkur Thómasi að ríki,4
mun hafa þótt sjálfsagt að draga dæmi af Thómasi þegar rætt var
um Guðmund. Hér skal ekki rekja þetta efni lengur. En sú
myrkvaþoka sem hvílir yfir sumum stöðum í Gudmundar sögu.
bróður Arngríms mun hverfa eins og dögg fyrir sólu, þegar Stefán
Karlsson hefur gengið frá öllum Guðmundar sögum þessa heims.
Nú þykir mál til komið að hverfa frá Arngrími Brandssyni og
þeim Norðlendingum sem sitja eftir með sárt ennið í dýrlingafæð
sinni og skreppa aftur á tólftu öld, þar sem vér rekumst á einn af
forverum Arngríms í ábótastétt á Þingeyrum. I þeim hluta Sverris
sögu sem fjallar um atburði á öndverðri ævi Sverris og í fornum
skrám gengur undir heitinu Grýla er býsna mögnuð frásögn af
svaðilförum um öræfi þau sem verða norðan við Vörs, vestan fjalls
í Noregi. Þessar hrakningar þeirra Sverris og Birkibeina eiga sér
stað skömmu eftir veturnætur 1177, nokkrum árum eftir að bana-
blóði erkibiskups er úthellt í Kantarabyrgi. Þeir lenda í óðahríð,
villast og vita ekki hvert þeir fara, verða matlausir, og hvergi vatn
að fá. „Það var átta dægur að þeir bergðu öngu nema snjó,“ ritar
Karl Jónsson, sem nokkrum misserum síðar fær lausn frá ábóta-
störfum á Þingeyrum og tekur síðan að yrkja sögu um óskilgetinn
færeyskan prest sem brýst til valda í Noregi. Oveður skellur yfir
með þvílíkum ofsa að bylurinn kastaði einum Birkibeina svo harð-
lega niður að braut í sundur hrygginn á honum á þrem stöðum.
„Og sá einn var þá til er bylirnir komu,“ segir ábóti, „að kasta sér
í snjóinn og halda skjöldum yfir sig sem fastast. Og þá lögðust
leiðsagnarmenn fyrir, því að þá vissu þeir eigi hvar þeir voru
komnir. Var þá og svo myrkt að þá mátti ekki fyrir sjá. Var liðið
farið af öllu saman, sulti og mæði, en sumir af kulda. Þá var svo fyr-
ir komið magni þeirra að engi vildi lengra fara. Og er helst mátti