Skírnir - 01.04.2000, Page 225
SKÍRNIR
UPPRUNI NÚTÍMANS Á 13. ÖLD
219
upp í nýju samfélagi með fastmótuðum héraðsríkjum. Dæmi Snorra
Sturlusonar, sem Jón Viðar Sigurðsson rekur dável (bls. 135-38) sýnir
þetta. Eina lausnin var að leita sér erlends stuðnings, eins og þeir gerðu
Sturla Sighvatsson, Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson.
Sú togstreita sem Guðrún Nordal sér víða í deilum 13. aldar sprettur
af andstæðum sem kenna mætti við „ofbeldismenningu“ annars vegar og
„siðmenningu" hins vegar. I þjóðfélagi 12. aldar var ofbeldi eðlileg leið
til að viðhalda vissu jafnvægi í samfélagi enda tryggði flókið net ætt-
menna, vina og bandamanna að ófriður varð ekki langvinnur. Þeir sem
þóttu duglegir við að ganga á milli og beita sér af hörku gegn ófriðar-
seggjum nutu virðingar sem náði út fyrir þau formlegu völd sem þeir
höfðu, t.d. Gissur Isleifsson Skálholtsbiskup og Jón Loftsson. Myndun
ríkja beinist gegn þessu ferli friðar og ófriðar. Ríkin áttu einn höfðingja
sem setti niður deilur án utanaðkomandi afskipta. Þessu hafa friðelsk-
andi bændur fagnað fyrst í stað, en skuggahliðin á þessu kerfi kom í ljós
þegar höfðingjar fóru að herja hver á annars héruð og bændur urðu fórn-
arlömb ófriðar, eins og tíðkaðist í fæðardeilum aðalsmanna á meginlandi
Evrópu.
Ríkjamyndun var ein leið til að takmarka ofbeldi. Onnur leið var að
hlífa þeim sem ekki gátu barist (konum og klerkum), helgum stöðum
(t.d. kirkjum) eða berjast ekki á stórhátíðum kirkjunnar (eins og Þórður
Sturluson boðaði bróður sínum). Tilskipanir af þessu tagi miðuðu í
sömu átt og ríkjamyndun en höfðingjar áttu ekki frumkvæði að þeim
heldur kirkjunnar menn. Hvort tveggja gerðist að hluta til vegna þess að
menn tóku mið af alþjóðlegri hugsun í þessum málum, en varasamt er að
líta á þetta sem afskipti.
Bein afskipti Noregskonungs felast kannski fyrst og fremst í því að
samræma þetta tvennt, þróun í átt að miðstýringu og aukna áherslu á
siðmenningu sem fólst í því að hlífa konum og kirkjum. Tækið til þess
var annars vegar að sameina íslenska höfðingja í einni hirð, hins vegar að
venja þá á tilteknar hegðunarreglur sem kenna má við kurteisi eða
hæversku.
Bandaríski sagnfræðingurinn Stephen Jaeger hefur nýlega sett fram
athyglisverðar hugmyndir um það hvernig hirðsiðareglur sem kenna má
við hæversku urðu til í Evrópu (sbr. The Origins of Courtliness. Civi-
lizing Trends and the Formation of Courtly Ideals 939-1210, Phila-
delphia, 1985). Telur hann að þar hafi kirkjunnar þjónar átt frumkvæði,
eða öllu heldur þeir þjónar kirkjunnar sem misst höfðu spón úr aski sín-
um þegar háskólar komu í stað dómskóla sem helstu menntasetur álf-
unnar. Að mati hans höfðu dómskólar Vestur-Evrópu víðtækari hlut-
verk en að mennta presta. Þeir bjuggu einnig til stétt lærdómsmanna sem
þjónaði við hirðir konunga og stuðlaði að „siðvæðingu" hirðmanna.
Bendir Jaeger einkum á hegðunarreglur í því sambandi, og fylgir þar
með í fótspor kunns þýsks félagsfræðings sem heitir Norbert Elias (sbr.