Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Síða 12
11
meðal Íslendinga, eins og Jón Hjaltason rekur í grein sinni. Sumarið 1865
beið hópur manna árangurslaust eftir skipi til Kaupmannahafnar, búinn að
selja allt sem unnt var; þaðan skyldi stefnt til Hamborgar þar sem buðust
reglubundnir flutningar til Brasilíu, kostaðir af brasilískum stjórnvöldum.
Aftur bjuggust menn til ferða árið 1873, en þá höfðu hundruð manna
skrifað sig fyrir búferlaflutningum til Brasilíu, flestir að norðan en einnig
stór hópur úr Vestmannaeyjum. Á endanum fóru þó aðeins rúmlega þrjátíu
manns. Jón hugar að þeim flóknu og margþættu tálmum sem ollu því að
fyrirætlanir um gjöfulli tilveru í Brasilíu brugðust og leitar einkum svara
í samtímaheimildum: dómsúrskurðum, bréfasöfnum frá þeim sem létu sig
málið skipta, og vikublöðum sem birtu áróður með og á móti útflutningi –
þar á meðal bréf frá Brasilíuförum.
Afdrif Brasilíufaranna og þáttur íslenskrar arfleifðar í sjálfsmynd þeirra
og þjóðarvitund eru helstu viðfangsefnin í grein Eyrúnar Eyþórsdóttur og
Kristínar Loftsdóttur, sem byggir á doktorsrannsókn Eyrúnar. Rannsóknin
skiptist í tvo hluta, fyrst um aðdraganda flutninganna héðan og svo um
íslenska arfleifð séða í samhengi við brasilískt samfélag. Í greininni rekja
þær hvernig sambandið rofnaði milli Brasilíufaranna innbyrðis og milli
þeirra og Íslands. Íslenska arfleifðin og þekking á henni hafði ekki varð-
veist sem merkingarbær hluti af sjálfsmynd afkomendanna en var síðan
skyndilega endurvakin í lok síðustu aldar. Niðurstöðurnar gefa til kynna
að heildstæðust sýn á endurvakningu þessarar sögu í félagslegu minni
afkomendanna fáist með því að skoða hana í samhengi við innflytjenda-
og félagssögu Brasilíu. Athugun á heimasíðu Ísland-Brasilíu-félagsins
(Associação Islãndia Brasil) endurspeglar áherslu á líffræðilegan uppruna
og mikilvægi þess fyrir félagslega stöðu einstaklingsins að geta sannað
„hvítleika“ sinn.
Ólafur Arnar Sveinsson ígrundar hvernig sendibréf vesturfara sem taka
til langs tíma og veita samanburð geta leitt í ljós síkvika þróun einstak-
lingsbundinnar sjálfsmyndasköpunar, „í baráttu við nýja heimalandið og
togstreitu við það gamla“. Hann athugar bréfaskipti Sigurðar Johnsens
við móður sína, Þuríði Johnsen, um áratuga skeið. Sigurður flutti til
Bandaríkjanna í lok 19. aldar en var kominn til Kanada þegar fyrri heim-
styrjöldin hófst og gekk í kanadíska herinn. Ólafur sýnir hvernig Sigurður
mótar og endurskapar sjálfsmynd sína með bréfasambandinu við móður
sína – ekki síst á tímum óvissu – og telur að riffillinn hafi verið tákngerv-
ingur fyrir það falska öryggi sem Sigurður sannfærði móður sína um að
ÍMYNDIR, SJÁLFSMYNDIR, ÞVERMENNINGARLEG YFIRFæRSLA