Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 19
18
drykki með ávaxtabragði úr flöskum. Prestunum tókst verulega upp í
ræðustólnum. Þeir fóru á það sem var kallað flug og ætluðu aldrei að ljúka
máli sínu þótt þeir fengju ekki mikið borgað frá ungmennafélaginu en
talið var að þeir héldu ræður á giftingar- eða útfarartaxta. Það þótti dágóð-
ur peningur miðað við tekjur fólks í kreppunni.
Við komuna á „sléttuna“, uppfullur af frásögum fyrri tíðar, vakti fyrst
undrun mína að borgin Winnipeg skyldi ekki vera á gróðursælu bökkun-
um við Winnipegvatnið heldur er óravegur milli vatns og borgar. Höfnina
sem hafði verið í höfðinu var hvergi að sjá í borginni. Ýmislegt annað tál
hvarf smám saman með sérstökum hætti og myndaði nýja og ekki síður
töfrandi veruleikaheild. Það er heild sem er hugsanleg. Vegalengdin milli
borgar og vatns reyndist vera óralöng. Mér fannst hún vera næstum enda-
laus. Loksins þegar komið var að vatninu í bíl sýndist það, sökum stærðar
sinnar, vera fremur sjór en stöðuvatn og öðruvísi á litinn en sá hugsanlegi.
Liturinn var svipaður þeim sem er á jökulfljóti, bláhvítur undanrennulitur,
en dálítið annar vegna kyrrðar á yfirborðinu. Einnig kom í ljós annað sjón-
arhorn á tilveru landnemanna við að skoða ljósmyndir á safninu í Gimli:
að lífið á þessum slóðum hefði ekki bara verið ánægja á sviði sigra á erf-
iðleikum heldur ýmiss konar leikur lífs og gleði: lífsgleði. Þarna á ljós-
myndum voru siglingar á vatninu, sund í vatninu, íþróttir á grasflötum við
vatnið, kórar að syngja hjá vatninu undir tjaldþaki, og meira að segja voru
konurnar þarna tískuklæddar með svipuðum hætti og frænkurnar heima í
skjóli fjalla. Maður sá sömu glettni í augum, sömu ögrun og sést á andliti
stúlkna. Þær hafa ekki alltaf verið að spyrða fisk eða salta. og þarna voru
líka bílar og spariklæddir bílaeigendur jafn montnir yfir fötunum sínum og
burstuðu skónum og sumir frændur og sprúttsalar í kreppunni. Kirkjurnar
voru jafn einfaldar í sniði og fátæklegar að innan og kirkjurnar heima.
Þær voru lýsandi dæmi um það sem er snautt í fari trúaðra: ekkert skraut,
engir óþarfir litir. Á þeim og innan þeirra var varla formræn fegurð, síst
hin ægifagra eða ögrandi og djarfa sem er hvarvetna í byggingarstíl kirkna
á meginlandi Evrópu. Vesturfararnir hafa ekki hætt sér út í neitt, ekki látið
vafasaman smekk afvegaleiða sig, þarna örlaði ekki á djörfung heldur látið
nægja að hlutirnir væru nýtilegir og sem lengst við lýði til lands og sjávar
og á vatnsbökkum.
Af hverju voru Vestur-Íslendingar svona varfærnir í nýjum heimi?
Fluttu þeir hana með sér? Gat varfærnin ekki skipt ham við nýjar aðstæður
og orðið að dirfsku? Var Nýja Ísland ekki það djarfa land sem maður hafði
GUðBERGUR BERGSSoN