Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Síða 23
22
en á endanum sannfærðist hann um að í syðstu héruðum Brasilíu myndu
Íslendingar una sér best, svo fremi „menn hjeðan gætu þrifizt undir svo
miklu heitari himinvegi“.3 Um þetta var þó vant að dæma og raunar ekki
nema ein leið. Menn urðu að finna þetta á sjálfum sér. Því var stofnað Hið
brasilíska útflutningsfélag og fjórir Þingeyingar sendir utan 1863 að kanna
landshætti. Foringi hópsins var Jónas Hallgrímsson snikkari. Með honum
í för voru feðgarnir og nafnarnir Jón Einarsson og Jón Jónsson. Fjórði
ferðalangurinn var Jónas Friðfinnsson, er tók nafnið Bardal, en allir fjórir
voru ættaðir úr Bárðardal.
Eins og til var ætlast skrifaði Jónas snikkari heim og sagði kost og löst
á hinu fjarlæga landi. Þar væri eilíft sumar og jörðin gæfi uppskeru allan
ársins hring, þegnarnir væru skattlausir, barnakennsla kostaði ekki neitt
og læknishjálp væri ókeypis handa innflytjendum fyrsta misserið þeirra í
landinu. Jónas lýsti líka göllunum og ekki í styttra máli. Skógarnir væru
erfiðir yfirferðar, mývargur angraði menn mestan hluta ársins, margt væri
eitraðra höggorma og sægur maura eyðilegði jarðargróðann fyrir mönn-
um. Allt væri líka dýrt því stjórnvöld legðu á háa vörutolla er kæmu í stað
beinna skatta. Niðurstaða Jónasar var þó skýlaus: Ég vil ekki fara heim
aftur, skrifaði hann, og get sagt eftir bestu samvisku að ekkert hef ég fund-
ið hér í Brasilíu sem ætti að aftra mönnum frá að flytjast hingað.4
Þrátt fyrir að Jónasi og félögum litist vel á land og þjóð fylgdi enginn
í fótspor þeirra, að minnsta kosti ekki í bráð. Þess skal þó getið að landi
þeirra og sveitungi, Mývetningurinn Kristján Guðmundsson er kallaði
sig Ísfeld, flæktist til Brasilíu skömmu á undan en hann ferðaðist upp á
eigin spýtur. Sljákkaði svo um sinn í Brasilíumönnum. Um 1870 blossaði
áhuginn upp aftur og enn voru Þingeyingar í fararbroddi, upptendraðir af
brasilískum „rúsínufjöllum“. Lyktir urðu þó þær að aðeins 35 einstaklingar
fóru að dæmi Jónasar Hallgrímssonar og héldu utan sumarið 1873.5 Hér
skal ekki orðlengt frekar um aðdraganda Brasilíuferða eða ástæður þeirra
heldur spurt: Hvers vegna fóru þær út um þúfur?
3 Lbs. 305, fol. IV. b., Einar Ásmundsson til Magnúsar Eiríkssonar 14. febrúar
1863.
4 Jónas Hallgrímsson, „Úr brjefum frá Brasilíu“, Norðanfari 18. mars 1865, bls. 17.
5 Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, Æfintýrið frá Íslandi til Brasilíu. Fyrstu fólksflutningar frá
Norðurlandi, Reykjavík: Sigurgeir Friðriksson, 1937–1938.
JÓN HJALTASoN