Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Page 33
32
til þeirra sem málið varðaði, jafnframt því sem hann tók að draga saman
nöfn þeirra er vildu þiggja boðið um fría siglingu til Brasilíu vorið 1874.
Hann reyndi altjent. Myndir þú nú ekki fá einhvern til að smala saman
nöfnum þeirra er vilja fara úr Mývatnssveit, skrifaði hann þingmanninum
á Gautlöndum, Jóni Sigurðssyni.37
Erindi ræðismanns Brasilíu í Kaupmannahöfn, um að senda í maí 1874
skip eftir 350 Íslendingum, fór þó aldrei hátt.38 Það varð ekki umtalað í
blöðunum og á endanum dagaði það uppi hjá þeim félögum, Einari í Nesi
og Jakobi á Grímsstöðum. Þar með var Brasilía endanlega úr myndinni hjá
íslenskum vesturförum.
Niðurstöður
Það liggur ljóst fyrir að Einari Ásmundssyni í Nesi og fylgismönnum hans
tókst aldrei að útvega skip til Brasilíu. Óneitanlega skýrir þessi staðreynd
að stórum hluta af hverju Brasilíuferðir Íslendinga fóru út um þúfur. Ég
get þó ekki fallist á að þetta sé fullnægjandi svar. Gleymum ekki að Einar í
Nesi varð er frá leið mótfallinn fjöldaflutningum beint frá Íslandi og suður
um höf.39 Hann vildi fremur að einstaklingar og fjölskyldur ferðuðust upp
á eigin spýtur frá Íslandi til Kaupmannahafnar og þar átti landinn fyrst að
draga sig saman í stærri hóp er héldi áfram til Þýskalands og um borð í
skip. Að safna vesturförum saman heima á Íslandi var ekki heillavænlegt
að mati Einars. Honum voru ófarirnar sumarið 1865 enn í fersku minni
þegar allt fór í handaskolum við að útvega skip og 150 manns sátu eftir
með sárt ennið. Hann hafði því minni ástæðu en ella til að hlaupa upp
til handa og fóta þegar skipið virtist loks standa til boða. Einar hafði líka
orðið fórnarlamb rógburðar og mátt sæta yfirheyrslu sýslumanns beinlín-
is vegna afskipta sinna af Brasilíuferðum. Hann langaði ekki í þá orma-
gryfju aftur. Á sömu ögurstundu – haustið 1873 – var Jakob Hálfdanarson
á Grímsstöðum einnig búinn að fá sig fullsaddan af Brasilíudraumnum.
37 Lbs. 2742, 4to, Jakob Hálfdanarson til Jóns Sigurðssonar á Gautlöndum 17. janúar
1874.
38 Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, Æfintýrið frá Íslandi til Brasilíu, bls. 282–285. Bréf Einars
í Nesi til Jakobs Hálfdanarssonar 11. nóvember 1873. Einar vitnar þar í bréf frá
brasilíska konsúlnum, skrifað á frönsku, þar sem hann lofar að senda skip að vori
frá Kristjánssandi.
39 Það er athyglisvert að strax 1865 lagði Einar á ráðin um að leigja skip er sigldi
rakleitt frá Húsavík til Dona Franciska í Brasilíu, samanber bréf hans til Magnúsar
Eiríkssonar dagsett 1. og 6. febrúar 1865 (Lbs. 305, fol IV. b.).
JÓN HJALTASoN