Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Page 34
33
Eða öllu heldur, hann var ekki reiðubúinn að ganga enn og aftur fram fyrir
skjöldu og gerast opinber forvígismaður búferlaflutninganna. Enginn veit
hvað hefði gerst vorið eftir ef menn eins og Jakob og Einar hefðu staðið
fastar í ístaðinu – kannski hefði hið langþráða Brasilíuskip birst. En viljinn
var ekki lengur fyrir hendi. Draumurinn var tekinn að óskýrast. Fréttir um
væntanlega skipakomu voru óljósar og sporin hræddu. Skipakoman hafði
brugðist áður.
Andstaðan var líka töluverð í samfélaginu, einkum frá þeim sem áttu
eitthvað undir sér. Pétur Havstein amtmaður þrumaði gegn Vestur-
heimsferðum, íslenskir menntamenn í Kaupmannahöfn sáu í þeim ill örlög
fósturjarðarinnar, prestar kölluðu þær feigðarflan og hreppstjórar óttuðust
tekjumissi sveitarsjóðs. Blöðin fluttu fréttir af grimmd innfæddra í Brasilíu
og sögðu af óförum Englendinga 1872. ofan í það ólán kom svo hrak-
fallasaga íslenska hópsins 1873.
Síðast en ekki síst fór saman að áhuginn á Brasilíu þvarr og fjöldaferðir
Íslendinga til Norður-Ameríku hófust. Þannig leysti ein heimsálfa aðra
af hólmi, að minnsta kosti í hugum íslenskra útflytjenda. Forvígismenn
Brasilíuferða sannfærðust þó aldrei, að minnsta kosti ekki Jakob
Hálfdanarson á Grímsstöðum, um að skiptin hefðu verið til hins betra.
„Ljóst er mér nú“, skrifaði Jakob á öndverðri 20. öld, „að mannúðlegra
var að benda löndum sínum til að nema land í Suður-Brasilíu, heldur en
í Canada, eptir því sem eg hefi kynzt sögnum um fyrstu tíma landa vorra,
sem til þessara beggja landa fluttu á áttunda tug næstliðinnar aldar.“40
40 Jón Þorkelsson, „Einar Ásmundsson“, bls. XVIII.
ÞVÍ MISTÓKUST BÚFERLAFLUTNINGAR ÍSLENDINGA TIL BRASILÍU?