Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 72
71
Þessar rannsóknir hafa margt til síns ágætis. Þær gera því góð skil
hvernig sjálfsmynd hóps er skilgreind í tengslum við gamla heimaland-
ið, en skýra síður frá upplifun einstaklinga af henni, þó að vissulega séu
ágæt dæmi um slíkt inni á milli. Upplifun Sigurðar Johnsen af samfélagi
Norður-Ameríku og tengslum sínum við Ísland var margs konar. Sumt
var skrifað í bréfin en annað hefur ekki verið skráð. Af og til birtist í skrif-
um hans samanburður á Íslandi og Kanada, sérstaklega þegar lýsa þurfti
því sem þætti frábrugðið á Íslandi. Hann gerði sitt besta til að skýra frá
því með samlíkingum sem bæði bréfritari og viðtakandi könnuðust við.
Moskítóflugum í Manitoba líkti Sigurður t.d. við blóðlitaða þoku og hefur
sá samanburður líklega verið sóttur í Austfjarðaþokuna við Eskifjörð.
„[M]jer dettur í hug móðu harðindin á gamla Íslandi“, skrifaði Sigurður
um flugurnar.45
Sjálfsmyndir mótast gjarnan í þessu samspili einstaklings og nátt-
úru, en augljóst er af skrifum Sigurðar – í þau fáu skipti sem hann fjallar
um náttúruna – að hugmyndir hans tóku allar mið af æskustöðvunum
á Austfjörðum. Enda hefðu náttúrulýsingar á Norður-Ameríku haft litla
þýðingu í bréfasambandi hans við móður sína án samanburðar við gamla
heimalandið. Kunnugleg náttúrufyrirbæri mótuðu því skýringar Sigurðar,
en athyglisvert er að sjá líkingar við atburði úr Íslandssögunni – atburði
sem hvorugt þeirra upplifði.
Í bréfunum er oft minnst á aðra íbúa Norður-Ameríku, fólk sem hlýtur
að hafa haft áhrif á hvernig Sigurður upplifði sjálfan sig sem innflytjanda í
Bandaríkjunum og Kanada. Hann tilheyrði ekki ríkjandi hópi samfélagsins
heldur lægri stéttum þess, þar sem tungumálið vafðist fyrir honum til að
byrja með. Það eitt og sér skýrir þó ekki endilega upplifun hans af þeirri
stöðu né því hvernig hann túlkaði aðra. Þegar rýnt er í skrif Sigurðar um
þau sem voru öðruvísi en hann mætti hafa til hliðsjónar hugmyndir heim-
spekingsins Jacques Derrida um það hvernig hinir verði til. Derrida segir
hina fyrst og fremst verða til í hugum einstaklinga þar sem þeir sjálfir séu
gerðir að hinum. Þeir upplifi sig því ekki sem hluta af því sem sé ráðandi
eða viðtekin venja, heldur sem frábrugðna. Með því að samþykkja þá hug-
mynd verði aðrir til í huglægu ástandi. Derrida notar orðið „upphugsun“
(e. invention) um þetta samspil. Hugmyndin um „okkur“ finnur sig ekki
45 ÞÍ, Einkaskjalasöfn, E.99.2, Sigurður Johnsen, 21. júlí 1914.
„RIFFILLINN ER HINN BESTI VINUR HERMANNSINS“