Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Blaðsíða 111
110
Fyrir henni klappar unga fólkið, eins og lög gera ráð fyrir, enda þótt
hún hneigi sig viðvaningslega, eins og títt er með unglinga, þegar
þeir í fyrsta sinni koma fram á ræðupall. Það tekur ekki neitt til þess.
Klappar eins hjartanlega þótt sumt eldra fólkið kunni að brosa að
viðvaningsbragnum, það sem betur kann sig.20
Hér er innbyggður lesandi greinilega félagi og skoðanabróðir hins bros-
andi „eldra fólks“ sem horfir á unglingana. Í stefnuskrá nýja blaðsins
segir Steingrímur að „þjóðerni og þjóðrækni“ séu stórmál blaðsins ásamt
kristnu, lútersku uppeldi og samheldni í lífi og starfi.
Blaðið vill þá líka, að æskulýðurinn haldi áfram að vera íslenzkur
æskulýður og telji sér það sóma að vera af íslenzku bergi brotinn.
Það vill þá stuðla til þess, að hann læri að þekkja sína þjóð og „eld-
gömlu Ísafold“ sem bezt – þá þjóð og það land, sem við eigum að vera
tengd við óslítandi böndum.21
Hér er aftur talað til hinna fullorðnu um börnin og höfðað til skyldu og
ábyrgðar því að við verðum að kynnast landinu og þjóðinni sem við eigum
að vera tengd óslítandi böndum.
Í öðru tölublaði Framtíðarinnar skrifar Steingrímur Thorlaksson að
hugmyndin um sérstakt blað handa börnum og unglingum hafi verið lengi
til umræðu en mönnum hafi þótt að slíkt blað yrði of dýrt og engin nauð-
syn væri á því vegna þess að „önnur blöð sé svo mörg fyrir. Ekkert vit sé
í að bæta einu við enn“.22 Hann segir hiklaust að Vestur-Íslendingar hafi
vanrækt börn sín og uppeldi þeirra og því séu bæði þjóðerni og tunga í
hættu stödd. Í nánast hverju tölublaði Framtíðarinnar höfðar Steingrímur
til lesenda og hvetur til þess að menn rækti tungumálið. Í áttunda tölublaði
árið 1908 skrifar hann pistil um íslenska tungu og segir að sá sem fari
gáleysislega með þjóðerni sitt sé ótrúr sjálfum sér og Guði og hann talar í
því sambandi um fáránleg skipti fólks úr íslenskum nöfnum yfir í ensk, en
ætla má að vænn hluti lesenda hans hafi þá þegar tekið þann kost.23
Framtíðin kom aðeins út í tvö ár og varð þá að hætta sökum fjárhags-
erfiðleika. Illa gekk að safna áskrifendum en erfiðara var þó að innheimta
áskriftargjöld eins og kvartað er yfir í síðustu tölublöðum blaðsins.
20 Framtíðin 1:1 (1908–1909), bls. 1.
21 Sama rit, bls. 3.
22 Framtíðin 1:2 (1908–1909), bls. 9.
23 Framtíðin 1:7 (1908–1909), bls. 58.
dAGný KRistJÁnsdóttiR