Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2014, Side 134
133
í hátíðarskyni, er þeim mjög fjarri skapi.“.53 Þetta er hins vegar sú sjálfs-
mynd Íslendingsins sem þjóðernisstefnan skóp og byggðist einkum á hug-
myndum um karlmannlega rökhyggju og skynsemi, gagnstætt kvenlegri
tilfinningasemi og öfgum.54 Hin karllæga þjóðarvitund er einnig allsráð-
andi í verðlaunakvæði skáldkonunnar, „Söngvum helguðum þjóðhátíð-
ardegi Íslands 17. júní 1944“. En þegar það var ort hafði skáldkonan flutt
frá Húsavík, höfuðstöðvum Kaupfélags Þingeyinga, sem faðir hennar hafði
tekið þátt í að skapa, á mölina í Reykjavík.55
Ljóðaflokkurinn skiptist í fjóra hluta, hvern með sínu bragformi. Fyrsti
hlutinn hefst með hyllingu frelsis, ættjarðar, norrænnar tungu og gullald-
arinnar en niðurlægingartímabilið er harmað. Síðan er samtíminn hylltur:
Heil, nútíð fögur, með söng og sögur
og sumar um dal og strönd,
með ættstofn vænan og gróður grænan
og hróður um höf og lönd.
Heill göfgum fræðum og fögrum kvæðum,
heill framtaki, útsjón og dug.
Heill bóndans garði og úthafsins arði
og sjómannsins hetjuhug.
Hér eru allar öfgarnar um kynstofninn og frægð hans og um karlmennsku-
ímynd Íslendinga en ekkert vikið að kvenþjóðinni. Í lokaerindi þessa hluta
er hins vegar sagt að börnin hylli móðurina góðu en það er landið sem átt
er við.
Annað kvæðið í ljóðaflokknum fjallar um frelsið sem Íslendingar hafi
unnað „heitt frá ómunatíð/ gegnum allt, sem við hlutum að reyna“. Hér
er vikið að þeirri goðsögn að landsmenn hafi elskað frelsið allt frá land-
námi.56 Rakin er sagan frá upphafi byggðar, alþingisstofnunin og síðan
erlend ánauð en frelsisandinn lifði:
og aldir liðu með álög mörg. –
En eilíf var frelsisþráin,
sem nam okkar land við brim og björg
53 Hulda, Úr minningablöðum, bls. 84.
54 Sigríður Matthíasdóttir, „Þjóðerni og karlmennska á Íslandi við upphaf 20. ald-
ar“.
55 Sigurður Nordal, „Hulda“, Segðu mér að sunnan, bls. xiii–xiv.
56 Guðmundur Hálfdanarson, „Goðsagnir íslenskrar sjálfstæðisbaráttu“, bls. 407–
408.
„SYNG, FRJÁLSA LAND, ÞINN FRELSISSöNG“