Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Page 90
S t e fá n S t e i n s s o n
90 TMM 2014 · 1
Ég lauk þýðingunni aðfaranótt 14. febrúar 2010 kl 3:03. Steinunn
Helgadóttir ljóðstafur hafði lesið hana jafnóðum og lauk lofsorði á. En það
kom babb í bátinn þegar ég bar þýðinguna undir jarðbundnari yfirlesara.
Ég hafði nefnilega snarað Heródótusi á íslensku sem stóð miðja vegu milli
Sveinbjarnar Egilssonar og fornsagnanna. Hún var þó ekki með samræmdri
stafsetningu fornri. Kristín systir mín og Aðalsteinn Ásberg réðu mér ein-
dregið að færa þýðinguna til nútíðarmáls. Ég bar það undir Gyrði og Bjarna
Harðar og voru þeir sammála að óséðu. Svona málnotkun getur verið dálítið
óskilgetin, sagði annaðhvort Bjarni eða ég sjálfur en með mismunandi
hreim. Ég vatt mér því í að umrita kverið og tók það eitt ár. Áðurnefnd
Steinunn saknaði Gamla stíls og hið sama gerðu þrjár ölvaðar dúfur sem
heimsóttu systur mína. En ég saknaði hans ekki. Ég var að endingu hneyksl-
aður á sjálfum mér að hafa látið mér detta þetta í hug. Ég er feginn að Silja
sá aldrei Gamla stíl, hún hefði tekið af mér hausinn. Núna er Gamli stíll á
leið á Þjóðskjalasafnið í brúnum umbúðapappír sem bannað verður að rjúfa
fyrr en 18. janúar 2058, daginn sem ég hefði orðið 100 ára hefði ég lifað. Þá
munu starfsmenn safnsins opna pakkann og setja innihaldið kurteislega í
rusladallinn.
Næst var að finna útgefanda. Mér var vel til uppheima en öðrum forkólf-
inum hafði ég kynnst lítillega gegnum Gyrði fyrir rúmum 20 árum. Ég bauð
honum kverið til útgáfu. Hann svaraði snaggaralega: Ég á ekki tvær milljónir
til að tapa á þér. Það sem hann vissi ekki og fékk heldur ekki að vita var að ég
myndi ekki þiggja þýðingarlaun. Grískan er mín laxveiði og mitt golf. Ég veit
ekki til að kollegarnir fái laun fyrir sín tómstundastörf. Flestir ekki, hygg ég.
Þessu næst talaði ég við Silju og þótti henni ekki góðum liðsmanni ofaukið.
Ég hafði alltaf verið ákveðinn að lesa allt kverið saman við frum-
textaútgáfu Oxford Classical Texts og það tók eitt ár í viðbót. Þá var komið
haust 2012. Silja las allan textann saman við þýðingu Robins Waterfields í
Oxford World‘s Classics sem er nostursleg þýðing frá 1998. Kristján Árnason
rannsakaði brot úr þýðingunni m.t.t. frumtexta og kvartaði ekki að ráði.
Hann skaut því þó að mér að færa kveðskapartilvitnanir í textanum yfir í
lausamál sem ég og gerði. Kristján kenndi mér þýsku á Laugarvatni. Ég fékk
tvenn verðlaun í þýsku af því Þýskalöndin voru tvö. Í vor sem leið fékk svo
Silja kveðju frá ungum klassíkfræðingi með nýbakað BA-próf sem bauðst
til að lesa kverið yfir. Lét hann þess jafnframt getið að eftir því sem hann
minnti væri Heródótus eitthvað það leiðinlegasta sem hann hefði lesið. Ég
veit ekki hvernig honum datt í hug að hann fengi embætti yfirlesara. En vin-
kona mín úr menntaskóla sem er kennari úti á landi var hugsi að ég skyldi
vera 6 ár að þýða eina skitna bók. Það er nokkuð til í því. Ef ég hefði ekki
tafið mig heilt ár með Gamla stíl hefðum við kannski lesið þetta fyrir ári. Ég
gat ekki yfirfarið Heródótus 12 sinnum eins og Skaphundinn. Sá síðarnefndi
er 27 bls. í frumtexta, Heródótus 774. En ég yfirfór hann 7 sinnum.
Menn hafa spurt mig hvort þetta hafi ekki verið mikil vinna. Ég ræddi það