Norðurljósið - 01.01.1966, Blaðsíða 166
166
NORÐURLJOSIÐ
Elaine svaraði þá í svolítið mildari tón: „Ég veit, hvað þér
þykir vænt um hana, og hvað hún gerði fyrir þig, þegar þú varst
ungur. T.il að þóknast þér samþykkti ég að hafa hana hér, en ég
setti það skilyrði, að koma hennar mætti ekki trufla daglegt líf
okkar.“
Hurð var lokað, og raddirnar urðu óskýrar. Það var satt, að
Elaine hafði ekki viljað, að hún kæmi, hugsaði Elízabet hrygg
í lund. Hún mátti ekki láta þau vita, að hún hefði heyrt samtal
þeirra. Það leið langur tími, þangað til hún sofnaði, því að
hugsunin um, að hún væri óvelkominn dvalargestur í annarra
húsi og yrði það, þangað til hún dæi, lá sem óþolandi byrði á
hjarta hennar.
3. kafli. Ný vinkona.
Sólskinið, sem streymdi inn um róslit gluggatjöldin, vakti
Elízabet næsta morgun. Drepið var á dyr, og Filippus gekk inn.
Þreytulegur var hann, en hann heilsaði henni brosandi. Hann
var með bakka, sem á var eitthvað ljúffengt, og setti bakkann á
borðið við rúmið.
„Þú verður að borða hér í makindum,“ sagði hann. „Við
Elaine höfum aldrei tíma til að fá okkur annað en tebolla á
morgnana. Hvíldu þig nú vel í dag. Það lítur út fyrir hlýtt veður,
svo að þú getur farið út í garðinn. Þar er sæti í forsælu við
garðendann.“
„Þú ert mjög hugulsamur, Filippus,“ mælti hún, „en það er
engin þörf á því, að mér sé þjónað svona.“
„Það er nú kominn tími til, að þú lifir í svolitlu eftirlæti,“
anzaði hann. „Þú verður ekki ein í allan dag. Frú Munroe kemur
hingað seinna. Hún er frá Meadham. Elaine fær hana tvo daga í
viku til að gera hreint. Nú verð ég að flýta mér af stað. Elaine
bað mig fyrir kveðju. Hún var orðin of sein og hafði ekki tíma
til að skreppa upp til þín.“
Elízabet brosti þakklætisbrosi. Hún neytti síðan morgunverðar,
þegar hann var farinn, las um stund og klæddist síðan.
Hún gekk ofan í eldhúsið. Það bar minjar um allan flýtinn.
Elízabet fann sér vinnuslopp og hóf svo að koma öllu í lag þar.
Henni leið betur, þegar hún hafði eitthvað fyrir stafni. Henni
datt einnig í hug, að gæti hún hjálpað Elaine eitthvað í önnum
hennar, þá gæti hún orðið mildari í framkomu við hana. Hún var
rétt að ljúka við að ganga frá öllu, þegar frú Munroe kom. Hún