Norðurljósið - 01.01.1984, Blaðsíða 133
NORÐURIJÚSIÐ
133
„Litla Villiblómið mitt! Hefir þér aldrei virts það undarlegt,
hvað faðir þinn er þögull og fálátur bæði við mig og þig,
einkum mig, og að ég verð að fara á mis við alla ástúð og
ánægju í sambúðinni við hann, svo ég lifi sem hver annar
einstæðingur."
Ég leit undrandi á móður mína og fann, að nýr heimur
óþekktra leyndardóma var að opnast sálu minni.
„Nei, mamma,“ svaraði ég, „ég hefi aldrei hugsað um það
á þennan hátt, heldur gerði ég mér í hugarlund, að hann, sem
er svo lærður og hefir svo mikið að hugsa og stunda, hefði
engan tíma til að gefa sig að okkur.“
„Það er ekki orsökin.“
„Mamma,“ sagði ég í geðshræringu, „ert þú ógæfusöm?
Ég hefi aldrei haft hugmynd um, að það væri svo —“. Ég
þagnaði, því ég vissi ekki, hvað ég átti að segja.
„Það er satt,“ bætti ég loks við, „að við morgunverðinn
óskaði ég, að faðir minn hefði haft eitthvert hlýtt ávarp
handa mér. Ó, mamma! Mig þyrsti svo mjög eftir, þó ekki
væri nema einu einasta ástarorði."
Tárin komu fram í dökku augun hennar móður minnar og
hún svaraði andvarpandi:
„Hjarta mitt þyrstir líka eftir ást, kæra, litla Villiblómið
mitt. Það hefir nú þyrst í mörg löng ár.“
Ég leit á hana undrandi og skelfd, og fannst eins og jörðin
bifaðist undir fótum mér. Á augabragði rann upp fyrir mér
endurminningin um öll hin liðnu ár, og ég vissi, að móðir
mín sagði satt; hún lifði sem einstæðingur.
Frá bernskudögum var ég því alvön, að sjá föður minn að
eins nokkur augnablik við máltíðirnar, og heyra hann aðeins
tala nokkur orð um daginn og veginn við móður mína. Mér
hafði ekki fundist neitt undarlegt eða athugavert við það, því
ég hafði haft of lítið samblendi við umheiminn til að vita,
hvernig ástúðlegt og ánægjulegt heimilislíf leit út í raun og
veru.
En nú höfðu augu mín opnast; ég sá, að það var ekki lestur
eða ritstörf, sem var orsök í þessu ástandi, heldur alger
vöntun ástar og hluttekningar, sem gerir lífið svo dýrmætt.