Andvari - 01.01.1996, Blaðsíða 44
42
EINAR ÓLAFSSON
ANDVARI
þetta, sem sjá má af leiðara blaðsins 30. september 1938, en ritstjóri
Þjóðviljans, Einar Olgeirsson, kallaði samninginn svik við Tékka í
leiðara sínum sama dag og taldi hann einkennast af skammsýni.
Griðasáttmáli Sovétríkjanna við Þýskaland í ágúst árið eftir var að
mörgu leyti rökrétt afleiðing þessa samnings og innrásar Þjóðverja í
Tékkóslóvakíu í mars. Þýska útþenslustefnan var fyrst og fremst í
austur og ógnaði Sovétríkjunum og hægt er að ímynda sér að Stalín
hafi átt bágt með að treysta vesturveldunum eftir samning Cham-
berlains, Daladiers og Hitlers í Munchen haustið áður. Og sömuleið-
is er rökrænt samhengi í þeim atburðum sem á eftir fylgdu, skiptingu
Póllands og innlimun Eystrasaltsríkjanna í september 1939 og innrás
Rauða hersins í Finnland 30. nóvember. Umfjöllun um þessa atburði
og afstöðu kommúnista til þeirra hefur oft verið óvönduð, stað-
reyndir og tilvitnanir hafa verið slitnar úr samhengi og afstaða
manna metin út frá samhengi atburða og vitneskju sem þá lá alls
ekki fyrir. Hér eru þó engin tök á að fara í saumana á því.
Frá sjónarmiði kommúnista kom til greina tvenns konar skilningur
á þeirri styrjöld sem nú var að hefjast. Væri þetta hreint heimsvalda-
stríð, stríð heimsvaldasinna um enduruppskiptingu áhrifasvæða, eins
og kommúnistar höfðu skilgreint fyrri heimsstyrjöldina, bæri verka-
lýð allra landa að hundsa þátttöku í því og svara því með sóknar-
baráttu fyrir sósíalisma í hverju landi fyrir sig. Það var nokkurn veg-
inn í samræmi við afstöðu Kominterns 1928 til 1934. Væri styrjöldin
hins vegar stríð með eða móti fasisma bæri verkalýðnum að taka af-
stöðu og samfylkja allri alþýðu og frjálslyndum öflum til varnar
friðnum og áunnu lýðræði. Það var nokkurn veginn í samræmi við
stefnu Kominterns eftir 1935 og það var auðvitað rökrétt að halda
þeirri stefnu áfram.
Vesturveldin, borgarastéttin og öll þau öfl, sem kenndu sig við lýð-
ræði til aðgreiningar frá kommúnistum og nasistum og fasistum, for-
dæmdu nú stefnu og aðgerðir Sovétríkjanna. Auðvitað var engin leið
fyrir kommúnista að skipa sér allt í einu í þá fylkingu gegn Sovét-
ríkjunum, hvað sem mátti annars um griðasáttmálann segja og allt
sem honum fylgdi. Til þess hékk einfaldlega of margt á spýtunni. En
með griðasáttmálanum var samfylkingin skyndilega rofin, ógn fas-
ismans færðist baksviðs og aðstæðurnar þrýstu stefnu kommúnista til
baka til þeirrar stefnu sem þeir höfðu haft fyrir 1935, og það var auð-
vitað þvert á þá staðreynd að ógn fasismans fór í raun ört vaxandi.